Fréttir

Tvær ferðir um næstu helgi: 6 tinda ferð Kaldbakur - Skersgnípa og gengið á Hreppsendasúlur.

21. ágúst. Kaldbakur - Skersgnípa,6 tinda ferð
Ekið verður að Grenivík og bílum lagt norðan við Grenjá. Gengið upp með Grenjárgili og hefðbundin leið upp á Kaldbak. Haldið er svo áfram í norður og komið við á Útburðarskálahnjúki, ónefndum tindi, Svínárhnjúki, Þernu og Skersgnýpu. Gengið verður svo niður Ausugil og Látraströndin gengin til baka að bílum. Um 25 km leið fyrir vana fjallafara og ólofthrædda.

Fararstjóri: Friðfinnur Gísli Skúlason.

Verð: kr. 3.000 / kr. 3.500

Brottför frá FFA kl. 7.00


22. ágúst. Hreppsendasúlur,1052 m.   
Haldið á fjallið skammt vestan við neyðarskýlið á Lágheiði, upp á súlurnar og til baka sömu leið. Þegar á toppinn er komið blasir stórkostlegt útsýni við til allra átta. Til baka er farið sömu leið. Þetta er frekar létt ganga við hæfi flestra.
Fararstjóri: Gunnar Halldórsson
Verð: kr. 1.500 / kr. 2.000
Brottför frá FFA kl. 8.00

Vígsla skálavarðarhúss og sviðamessa.

Vígsla nýja skálavarðarhússins í Laugafelli og sviðamessa verður haldin 11. september. Boðskort verða send þegar nær dregur.
- Stjórnin

Næstu Ferðir FFA

Þeir sem eru haldnir valkvíða munu eiga erfitt með að ákveða sig næstu helgi því úr nógu er að taka. Frá föstudegi 13. ágúst til sunnudagsins 15. ágúst er í boði jeppaleiðangur um Austuröræfi . Á laugardeginum er um 30 km ganga upp á Mælifellshnjúk í Djúpadal upp Þverdal og niður Hvassafellsdal. Á sunnudeginum 15. ágúst er svo skemmtileg ganga á Uppsalahnjúk ofan Freyvangs í Eyjafirði, en af Uppsalahnjúk er gífurlega fallegt útsýni yfir Eyjafjörð.

Myndir úr ferð á Blástakk

Komnar eru inn myndir úr gönguferð 1. ágúst. En þá var gengið á Blástakk inn af Féeggstaðadal í Hörgárdal. Alls voru 9 með í för. Gengið var á Blástakk, Blekkil, ónefnt fjall og Sörlatungufjall.
- Skoða myndir úr ferðinni.

Næsta Ferð - Herðubreið

Fyrirhugað er að ganga á Herðubreið n.k. laugardag. Á föstudag kl. 16 er brottför frá skrifstofu FFA að Strandgötu 23. Gott er að vera mætt(ur) tímanlega til að ganga frá greiðslu. Sameinast verður í bíla. Ætlast er til að bensín- og olíukostnaði verði dreift á milli ferðafélaga. Einhverjir ætla að gista í tjöldum og aðrir í skála. Þorsteinsskáli er bókaður fyrir þennan hóp í tvær nætur. Í Þorsteinsskála er allur borð- og eldunarbúnaður, þar eru einnig dýnur til að sofa á. Reiknað er með 4-5 klst. akstri frá Akureyri. Gangan á Herðubreið frá bílastæðinu við uppgönguna upp á topp er um 3 km og rúmlega 1000 metra hækkun. Minnum fólk á hjálmana sína, kraftmikið nesti, góðan fatnað og skóbúnað. Gott er að vera í góðu gönguformi.
ATH. Uppselt er í ferðina og er kominn langur biðlisti.