Umhverfisstefna Ferðafélags Akureyrar (FFA)
Unnið verður eftir Staðardagskrá 21 á Íslandi sem er verkefnaáætlun í anda sjálfbærrar þróunar.
Eftirfarandi þættir verði hafðir að leiðarljósi:
- Lögð verði áhersla á að viðhalda fallegri og snyrtilegri ásýnd skála FFA og umhverfis þeirra og framtíðar-uppbygging á svæðunum muni falla vel að þeirri ásjónu sem einkennir staðina í dag.
- Áhersla verði lögð á verndun náttúru- og menningarminja.
- Stuðlað sé að umhverfisvænum starfsháttum með áherslu á að halda mengun, orkunotkun og sóun verðmæta í lágmarki.
- Í skálum FFA sé fjölskylduvænt samfélag þar sem áhersla er lögð á að öllum gestum líði vel í lifandi og skemmtilegu umhverfi.
- Fylgt sé viðeigandi lögum og reglugerðum varðandi umhverfismál og öðrum kröfum sem samþykkt hefur verið að uppfylla.
- Merkingar stíga verði skipulagðar m.t.t. náttúru staðarins og sem minnst áberandi í landslagi.
- Umhverfisstefnan og framkvæmd hennar verði sýnileg hagsmunaaðilum og almenningi, og verði öðrum hvatning til þess að leggja sitt af mörkum til að vernda umhverfið fyrir komandi kynslóðir.
Markmið og leiðir:
Skálar FFA og umhverfi þeirra verði ávallt þekkt fyrir fallega ásýnd og snyrtimennsku.
- Unnið verður markvisst að því að halda nánasta umhverfi snyrtilegu og viðhalda góðu ástandi mannvirkja.
- Gamlar byggingar fái nýtt hlutverk þegar fyrri starfsemi leggst niður sé þess nokkur kostur.
- Nýbyggingar falli vel að umhverfinu og séu staðsettar á stöðum sem stinga ekki í stúf við heildarásýnd staðarins.
Náttúruvernd og verndun menningarminja verði mikilvægur þáttur í starfsemi á FFA.
- Merkingar stíga verði skipulagðar og sýndar á kortum og þeim við haldið á þeim stöðum þar sem hægt er að ganga eða skoða minjar.
- Fylgst verði með álagi á gróður þar sem gengið er um og komið í veg fyrir eyðileggingu eða frekari röskun á gróðursamfélögum, t.d. með gerð göngustíga.
- Samstarf við stofnanir sem vinna að verndun náttúru- og menningarminja eins og Umhverfisstofnun, Vatnajökulsþjóðgarð, Landgræðslu, Landvernd og Þjóðminjasafnsins verði áfram virkt.
Stuðla að meðvitund starfsfólks og gesta um umhverfismál.
- Skráðar upplýsingar um náttúru- og menningarminjar verði gerðar aðgengilegar og sýnilegar starfsfólki og gestum.
- Með skipulagðri fræðslu verði gestum gerð grein fyrir þeirri starfsemi sem fram fer í Herðubreiðarlindum Dreka, Laugafelli og öðrum svæðum FFA.
Draga úr mengun, verðmætasóun og orkunotkun.
- Halda fráveitum frá skálum í góðu horfi.
- Standa rétt að meðhöndlun og förgun eitur- og spilliefna.
- Hvetja gesti til að endurnýta og endurvinna verðmæti og draga þannig úr sóun á verðmætum.
- Minnka pappírsnotkun með áherslu á endurnýtingu.
- Draga úr orkunotkun með því að hafa ekki kveikt á rafmagnstækjum eða ljósum þegar það er ekki nauðsynlegt.
Í fjölskylduvænu samfélagi eiga góð lífsskilyrði og vellíðan að vera í fyrirrúmi.
- Gera náttúru, sögu og menningu staðarins aðgengilega og spennandi fyrir alla t.d. með skipulögðum útivistarsvæðum, gönguferðum, leikjum eða annarri afþreyingu.
- Auka öryggi barna og annarra með því draga úr slysahættu.
- Hvetja starfsfólk til að hafa jákvæð áhrif á sitt nánasta umhverfi og sjá árangur vaxa með verkum sínum.
Hvetja fólk til hollrar hreyfingar með kynningu á skipulögðum ferðum við allra hæfi, heilbrigð sál í hraustum líkama.