Svartárkot Botni Heilagsdalur Mývatn.
Veður var hið besta þegar lagt var af stað frá Akureyri áleiðis í Svartárkot innsta bæ í Bárðardal. Meiningin var að fara í þriggja daga skíðaferð um Ódáðahraun og Heilagsdal. Þrátt fyrir mikil hlýindi undanfarna daga var nægur snjór þegar komið var innst í Bárðardal. Skíðafæri var hið besta og um kl sjö var komið í Botna hlýlegan og góðan skála Ferðafélags Akureyrar eftir kaffipásu á Stóruflesju þar sem gangnamannaskáli Mývetninga er. Morguninn eftir var risið snemma úr rekkju því 26 km ganga beið okkar frá Botna í Heilagsdal. Eftir morgunmat og hreingerningu var lagt af stað í heiðskíru veðri og sunnan andvara. Nú tók við ganga milli hraunfláka oftast fannst nú leið á milli en nokkrum sinnum þurftum við að taka af okkur skíðin til að ganga yfir hraunið. Stefnan var á skarð í Bláfjallarananum sem nálgaðist hægt þrátt fyrir nokkurra tíma göngu. Eftir kaffistopp var komið að smá brekku sem í bjartsýni okkar héldum að væri hækkunin upp í skarðið en þegar upp var komið tók við önnur slétta nokkrir kílómetrar en allt hafðist þetta í góða veðrinu. Uppi í skarðinu sat varðmaður (sjá mynd) sem hleypti okkur í gegn. En nú tognaði Vignir íllilega og Heimir var lítið skárri. Eftir að bundið hafði verið um lærið gat hann eða varð að halda áfram og um kl. fjögur var komið að skálanum. En nú tók ekki betra við skálinn var læstur en vegna mistaka var enginn lykill að skálanum með. Í glugga í skálanum var gefið upp símanúmer sem við hringdum í því það var lyklalás á skálanum, en nú tók steininn úr þeir voru með númer sem þeir sögðu að virkaði ekki og engin ráð til að komast inn, ekki var gert ráð fyrir að skíðafólk væri á ferðinni þótt skálinn hafi verið pantaður fyrir þessa ferð. Útilokað var að halda áfram en það er ekki háttur okkar að kalla út björgunarsveit, enda var hún í Borgarfirði en það virtist nú vera það eina í stöðunni, þokan að leggjast yfir og snögg kólnaði. Margra tíma bið virtist vera í aðsígi, eftir 26 km. göngu. En þá kom Heimir bjargvættur, var að fikta í talnalásnum og fékk vinning einn á móti 10.000 og lyklaboxið opnaðist, leiðin var greið. Svona lagað ætti ekki að koma fyrir og er þetta áminning til okkar allra. Eftir gott atlæti í skálanum og góðan svefn var staðan orðin önnur, bólgan hafði rénað hjá þeim Vigni og Heimi, var reynandi að halda áfram enda báðir hörkutól, en ákveðið var að breyta ferðaáætlun og halda niður í Mývatnssveit, það voru um 15 km en 32 km í Svartárkot sem upphaflega var áætlað. Úti var svarta þoka en gengið var eftir snjósleðaförum og vindátt norður Heilagsdalinn. Svo var beygt niður rétt norðan við Seljahjallagil, þar var snjórinn búinn og gengið í Garð í Mývatnssveit um 6 km. Þar kom annar bjargvættur Astrid Magnúsdóttir sem ók okkur í Svartárkot til að ná í bílinn og heim. Eftirminnileg ferð sem fór vel. Vignir Víkingsson var fararstjóri myndir Frímann Guðmundsson .
Skoða myndir