Næstu Ferðir FFA

Quo vadis?
Quo vadis?

Þeir sem eru haldnir valkvíða munu eiga erfitt með að ákveða sig næstu helgi því úr nógu er að taka. Frá föstudegi 13. ágúst til sunnudagsins 15. ágúst er í boði jeppaleiðangur um Austuröræfi . Á laugardeginum er um 30 km ganga upp á Mælifellshnjúk í Djúpadal upp Þverdal og niður Hvassafellsdal. Á sunnudeginum 15. ágúst er svo skemmtileg ganga á Uppsalahnjúk ofan Freyvangs í Eyjafirði, en af Uppsalahnjúk er gífurlega fallegt útsýni yfir Eyjafjörð.

13. – 15. ágúst. Jeppaferð   
Á föstudeginum 13. ágúst verður keyrt frá Akureyri að Drekagili og gist þar í skála FFA. Á laugardegi verður ekið inn að Grágæsavatni í Grágæsadal og þaðan til baka að Dreka. Á sunnudegi verður farin skoðunarferð að Öskjuvatni og Víti. Að því loknu verður ekið að Herðubreiðarlindum og þaðan haldið aftur til Akureyrar.
Nauðsynlegt er að skrá sig í þessa ferð.
Fararstjóri: Vignir Víkingsson.
Verð: kr. 6.400 / kr. 9.000
Innifalið: Fararstjórn, gisting.
Brottför frá FFA kl. 16.00

14. ágúst. Mælifellshnjúkur í Djúpadal, 1140 m.     
Gönguferðin hefst við vegarenda við bæinn Litla-Dal. Í fyrstu er farið meðfram Djúpadalsánni uns er vaðið yfir ofan við Strjúgsá. Áfram er haldið inn Þverdalinn. Í um 600 m hæð er stefnan tekin upp með læknum á Mælifellið og út á hnjúkinn þar sem útsýni er frábært. Til baka er farið inn eftir fellinu og á móts við botn Þverdals er sneitt niður í Hvassafellsdal og sem leið liggur niður dalinn, vaðið yfir Djúpadalsá og skoðað eyðibýlið Kambfell. Vaða þarf yfir Hagá á leiðinni heim að Litla-Dal.
Fararstjóri: Una Sigurðardóttir.
Verð: kr. 3.000 / kr. 3.500
Innifalið: Fararstjórn.
Brottför frá FFA kl. 8.00

15. ágúst. Uppsalahnjúkur, 1100 m.   
Gengið frá sumarhúsinu Seli upp brekkurnar að vörðunni nyrst á Hausnum. Þá er gengið inn eftir fjallinu um greiðfær holt og síðan upp á hnjúkinn. Útsýnið þaðan er mikið og fagurt yfir héraðið.
Fararstjóri: Roar Kvam
Verð: kr. 1.500 / kr. 2.000
Brottför frá FFA kl. 8.00