Ekið var að bænum Syðri-Bægisá í Öxnadal og fengið leyfi hjá bóndanum að ganga inn dalinn sem er um 10 km langur og gljúfrin og fossarnir skoðaðir í leiðinni. Smá hrollur var í fararstjóranum að ganga yfir Bægisárjökulinn sem hann hafði ekki farið áður yfir og var búinn að fá fregnir af að jökullinn væri sprunginn. Þegar sást til jökulsins virtist hann snarbrattur uppgöngu, en þegar nær dró var þetta missýning. Gangan yfir jökulinn reyndist létt og engar sprungur. Ekki var farið á Tröllahyrnu að þessu sinni þar sem þoka var á fjallinu heldur beint niður í Glerárdalsbotn. Farið var niður snarbratta fönn, þar læddist aftan að okkur steinn á fljúgandi ferð og þaut í gegnu um hópinn en hitti engan sem betur fór, margt er að varast á fjöllum. Síðan var vaðið yfir Glerá og að Lamba. Þaðan farið niður um Grenishóla yfir Lambá niður Bungur og heim að réttinni þar sem Súluvegurinn endar. Erfið ferð á enda þar sem farið var um stórbrotið landslag, gljúfur, fossa, jökul, há fjöll, útsýni, vaða ár, Hvað er hægt að fá meira út úr einni ferð. Fararstjóri og myndasmiður Frímann Guðmundsson.
Skoða myndir