- Skrifstofan
- Félagið
- Ferðir og viðburðir
- Hreyfiverkefni
- Skálar
- Myndir
Stjórn FFA ákvað á fundi sínum 15. janúar 2018 að hefja vinnu við stefnumótunarvinnu félagsins með það að markmiði Að efla innra starf félagsins. Til liðs við sig fékk stjórnin Rúnar Sigþórsson prófessor við HA, hann er mjög vanur stefnumótunarvinnu og er félagsmaður í FFA.
Fyrsta skrefið í stefnumótunarvinnunni var að nefndir og hópar innan félagsins fóru í greiningarvinnu fyrir sína nefnd eða hóp. Til þess var notað greiningarlíkan. Í greiningarlíkaninu skoðaði nefndin/hópurinn m.a. verkefni nefndarinnar, hlutverk hvers og eins innan nefndarinnar, sterka þætti í vinnu nefndarinnar og tækifæri sem nefndarmenn sáu fyrir sér. Auk þess gátu hóparnir komið öðrum hugmyndum á framfæri, hugmyndum sem koma öðrum nefndum eða félaginu að notum, breyttar áherslur eða annað. Markmiðið var að ljúka þessari vinnu 9. mars sem tókst. Þá höfðu 37 manns komið að þessari vinnu og sumir komu að fleiri greiningum.
Út úr þeirri vinnu komu tólf efnisflokkar. Nokkrir aðilar hittust svo og unnu endanlegar hugmyndir úr þessum þáttum, þ.e. að finna leiðir og halda áfram með þá vinnu. Farið var yfir öll líkönin og útbúið skjal fyrir allar nefndir. Lykilþáttum var fækkað í sex.
28. maí 2018 var haldinn opinn kynningarfundur á stefnumótunarvinnunni. Fundinn sóttu 40 manns bæði innan og utan félagsins. Þar var þessi vinna kynnt svo og lykilþættirnir sex sem settir verða inn á heimasíðuna. Við þá hafa verið sett markmið og leiðir og hverjir bera ábyrgð á hverjum þætti og að þróa þá áfram. Síðan er það hlutverk stjórnar og félagsfunda í framhaldinu að framfylgja þeim.
Í október 2018 höfðu allar nefndir fengið í hendur skjöl með hugmyndum og athugasemdum úr stefnumótunarferlinu. Nefndirnar unnu síðan úr skjölunum fram í febrúar 2019 en þá skiluðu þær þeim til stjórnar sem tók stöðuna á vinnunni fyrir aðalfund í mars. Stefnan var svo samþykkt á aðalfundi í mars 2019.