- 28 stk.
- 06.04.2014
Hólsgerði-Bergland-Laugafell
Að morgni föstudagsins 4. Apríl var lagt af stað í skíðaferð. Ekið var inn að Hólsgerði innsta bæ í Eyjafirði. Þar voru skíðin tekin fram og gengið fram dalinn
framhjá eyðibýlinu Úlfsá og inn að Hafrárgili. Þar var lagt á brattann upp bratta hlíðina þar sem fyrrum félagar í Ferðafélagi Akureyrar eiga margan svitadropann því einar 70 vinnuferðir voru farnar til að búa til veg þarna upp á árunum fyrir 1950. Þarna er komið að Vatnahjallaveg sem er líka nefndur Eyfirðingavegur. Hann var í alfaraleið til Suðurlands upp úr Eyjafirði fyrrum. Neðst í brekkunum er Hákarlatorfa og uppi á brúninni, á hinum eina og sanna Vatnahjalla, er varðan Sankti Pétur. Síðan var haldið meðfram Urðarvötnum, og komið við í Berglandi. Í upphaflegri áætlun var meiningin að fara ekki lengra á fyrsta degi en klukkan var ekki nema rúmlega tvö og allir í fínu formi og laugin og heita húsið í Laugafelli freistuðu, því inni í Berglandi var mun kaldara en úti. Eftir gott stopp ver stefnan tekin á Laugafell skíðafæri og veðrið gat ekki verið betra, kaffistopp var við Geldingarána og um hálf átta var komið í Laugafell. Eftir strangar leikfimiæfingar undir stjórn Ellu var lagst í laugina til að láta líða úr sér, þá var loks komið að matartíma og hraustlega tekið á því til að létta pokana. Um morgunin var ákveðið að stytta ferðina um einn dag og um níu var lagt af stað heimleiðis í smá austan golu sem varð að logni þegar á daginn leið. Heimferðin gekk greitt og komið í bæinn um sjö. Frábær ferð á enda, nokkuð strembin enda tæpir 80 km á skíðum að baki og hækkun upp í 1000 m. Allir komu heim þreyttir og sælir mis brenndir eftir sólríka ferð. Fararstjóri og myndasmiður Frímann Guðmundsson.