- 41 stk.
- 17.07.2010
Laugardaginn 17. júlí 2010, héldu 14 óhræddir, ævintýraþyrstir, fjallasjúkir og öllu viðbúnir göngugarpar frá brúnni við Grenjá af stað upp á Kaldbak í Eyjafirði. Hugmyndin var að ganga öll fjöllin frá Kaldabak norður að Gjögurfjalli, alls 16 tindar. Áætlaður göngutími var um 20 klst. 10-15 metra skyggni var á okkur nánast allan tíman en þó lítil bleyta og vindur. Fararstjórinn þurfti að hafa sig allan við að rata rétta leið í þokunni og var því lítið um sögur og söng á leiðinni. Huggun harmi gegn hélt einn tónelskur stuðinu uppi með afar fjölbreyttu og fögru blístri sem ómaði um tinda Látrastrandar með miklum fögnuði viðstraddra og þegar sá hinn sami var ekki að blístra, bauð hann upp á nýuppáhellt pressukönnukaffi. Eina almennilega skyggnið á leiðinni var á Uxaskarði, en þá vorum við á milli skýjalaga og var skýlaust í 300 til 500 metra hæð, þokubakki niðri og lágský fyrir ofan okkur. En eftir að hafa gengið á 16 tinda á 17 klukkustundum og 15 mínútum og hækkað okkur samtals um 3200 metra komum við niður í Látur og skömmu síðar komin í bátsferð til Grenivíkur þar sem ferðinni lauk. Flestir voru á því að þessi ferð skyldi endurtekin í betra skyggni.
Myndasmiðir eru Viðar Sigmarsson og Sólveig Haraldsdóttir.