- Skrifstofan
- Félagið
- Ferðir og viðburðir
- Hreyfiverkefni
- Skálar
- Myndir
Sjö tindaferð Ferðafélags Akureyrar 13. júlí 2013
Um miðjan júlí fórum við á fjöll
– flestir báru myndavél og símann –
gönguvön við töldum okkur öll
og okkur stýrðu Sigurlína og Frímann.
Á fjöllum uppi finn ég mjög til þess
hve fjarlægur er svefnhöfginn og drunginn.
Á tinda sjö við sextán gengum hress
og sólargeislar vermdu á mér skallann.
Kerling
Takmarkinu tókst mér loks að ná,
tæpast veit ég aðra betri staði.
Kerlingu ég lengi undi á,
alsæll og í miklu svitabaði.
Hverfandi
Að finna það er heldur hægt um vik,
af höfuðskepnum fágað allt og sorfið,
en snúðu þér svo undan augnablik
og óðara er blessað fjallið horfið.
Þríklakkar
Á Þríklakka ég komst við puð og príl
og pínulítið skrokknum tók að hraka.
Ætti hérna einhver góðan bíl
indælt væri að þiggja far til baka.
Bóndi
Bóndi – vantar búfé allt og rann
beina samt af ánægju hann veitir.
Kvenmennirnir komust yfir hann,
kinnarjóðir, brosandi og heitir.
Litli Krummi
Litli Krummi, lágur, hálfgert peð,
lítil töf er þeim sem á hann gengur.
Tindum sjö hann telst því ekki með
og tæpast vert að dvelja við hann lengur.
Stóri Krummi
Stóri Krummi er stærri en bróðir hans,
sem stigi upp til himna myndi duga.
Á kolli hans er djarft að stíga dans,
þar dyttu allir nema lipur fluga.
Syðri Súla
Tíguleg er Syðri Súla og há,
síðulöng og grýtt er hún á köflum.
Melasól í möl þar bústað á,
svo mjúk og andlitsgul og varin sköflum.
Ytri Súla
Ytri Súla – nú er gatan greið,
gönguferðin er að verða búin.
Niður brattann höldum heim á leið,
hrósum sigri, glöð – en kannske lúin.
- - -
Í garði mínum skýldum tróna tré
tíu metra há – með digrar rætur –
en vetrarblómið lága samt ég sé
á Súlutindi margar draumanætur.
DHH
Davíð Hjálmar Haraldsson