- Skrifstofan
- Félagið
- Ferðir og viðburðir
- Hreyfiverkefni
- Skálar
- Myndir
Helgina 20. - 22. apríl var á áætlun Ferðafélags Akureyrar að ganga á skíðum uppúr Eyjafirði upp Vatnahjalla í Bergland sem er skáli í einkaeigu Á laugardeginum var gengið áfram í Laugafell, í skála Ferðafélags Akureyrar. Á sunnudeginum gengum við til baka norður að Urðarvötnum og niður Vatnahjalla. Fararstjóri var Frímann Guðmundsson.
Lagt var af stað eftir hádegi á föstudegi frá skrifstofu Ferðafélags Akureyrar. Við vorum sex ferðafélagar á ferð: “Anke Maria, Frímann, Grétar, Ingvar, Kristín og Valur” Þrátt fyrir slæma veðurspá, norðanhret og rigning, og hrakspá frá fólki og sögur um slys og mannskaða ákváðum við að halda samt til fjalla. Við vissum að við kæmumst í Bergland og gætum þá hafst við í skálanum þar til sunnudags ef illa færi með veður, við vorum vel útbúin með nesti til þriggja daga. Við keyrðum inn Eyjarfjörðinn í sólskini en þegar við nálguðumst Hólsgerði byrjaði að rigna og við sáum að það var þoka eða slydda upp í fjöllunum, spáin ætlaði sem sagt að rætast en það átti að fara rigna eða snjóa þegar liði á föstudaginn. Við lögðum bílunum við Vatnahjalla þar sem gamli vegurinn byrjar upp hjallana. Þar sem það var algjörlega snjólaust upp fyrstu 800-900 metrana festum við skíðin á bakpokana og bárum þau upp. Það tók vel í, en við vorum öll vel upplögð í góðri þjálfun og mikil tilhlökkun í mannskapnum. Við veltum því fyrir okkur á leiðinni upp veginn hvernig bílar kæmust upp þennan bratta og þrönga veg. Ósköp var nú gott þegar við komum í snjóinn og gátum sett á okkur skíðin, en þá áttum við enn eftir smá hækkun í Sankti Pétur, en það er varða sem við ætluðum að stoppa við. Við héldum áfram upp að Sankti Pétri og settumst þar niður og snæddum nestið okkar. Veðrið var greinilega að versna með norðan hríð svo við áðum ekki lengi þarna. Við héldum því af stað og skíðuðum eitthvað út í veðrið. Frímann fararstjóri labbaði fremstur með GPS tækið um hálsinn og við hin eins og sauðir á eftir. Skyggnið var ekki mikið því hríðin ágerðist. Allt í einu áttaði ég mig á því að við vorum komin í töluvert mikinn hliðarhalla! Æi það var eins gott að sjá ekkert, hvorki niður fyrir sig eða upp fyrir sig. Bara halda þetta út, passa sig á að detta ekki og elta hina. Annað slagið rofaði til og sá ég þá allt í einu snjóhengjur fyrir ofan sem biðu bara eftir því að falla yfir okkur! Ferðin gekk samt vel því við vorum með vindinn í bakið. Svona gekk þetta, rofaði til annað slagið og þá var hægt að rétta stefnuna af. Um áttaleytið á laugardagskvöldið sáum við í Bergland í gegnum hríðina. Þá voru þar tveir jeppar á ferð á leið frá skálanum. Það fór í gegnum hugann á mér að við kæmum þá í hlýjan skála ef mennirnir á jeppunum hefðu verið þar inni. En svo var þó ekki. Mennirnir höfðu aðeins stoppað fyrir utan skálann og haldið áfram, trúlega í átt að Laugafelli. Það var samt gott að komast í skálann og taka af sér skíðin og bakpokann. Við Valur sóttum snjó til að bræða því ekkert vatn var í skálanum, en hinir komu sér inn og kveiktu upp í olíukyndingunni og gasofni, við settum potta með snjó yfir gasið og olíukyndinguna til að bræða vatn fyrir kvöldmatinn. Svo hengdum við upp til þerris blautan göngufatnaðinn. Fljótlega var tekin fram matur og snæddur dýrindis kvöldverður að hætti göngumanna. Það er svo merkilegt hvað allur matur smakkast vel uppá fjöllum. Við fórum snemma í háttinn því við ætluðum að vera úthvíld til að takast á við næsta dag og veðrið sem búið var að spá. Þar sem mikið var af blautum fötum um allan skálann var mikill raki í skálanum. Við áttuðum okkur á því að það vantar meiri loftræstingu í hann, en það er bara ein lítil túða í öllum skálanum. Annars er þetta vel útbúin skáli með öllum þeim þægindum sem á þarf að halda.
Þegar við vöknuðum á laugardeginum hafði spáin greinilega ræst því það var norðanrok og blindhríð. “Ekki hundi út sigandi” eins og Frímann sagði þegar hann kom inn eftir að hafa farið út til að gera morgunverkin. Við héldum okkur í koju eitthvað fram eftir því ljóst var að við legðum ekki út í þetta veður. Hungrið rak mig á fætur, ég hugaði að fötum sem héngu til þerris, sumt hafði ekki enn náð að þorna. Við kveiktum undir pottum með snjó, en einhver hugaður hafði farið út og sótt nýjan snjó. Höfðum það svo bara ósköp notalegt, kíktum í bækur sem þarna eru og spiluðum bridge. Um hádegið voru sumir farnir að ókyrrast og vildu fara gera eitthvað. Veðrið var tekið rétt fyrir klukkan eitt, en ágætis útvarp er í skálanum. Síðan var lagt á ráðin með hvað við ættum að gera. Halda til í skálanum, snúa til baka eða halda áætlun í Laugafell? Ákvörðun var tekin og haldið af stað í Laugafell um tvöleytið. Veður var aðeins farið að lægja. Eins og fyrri daginn var fararstjóri fyrstur og við hin á eftir. Ferðin gekk mjög vel þar sem við vorum ekki að hækka okkur eins mikið og áður.
Við fórum yfir snjóbrú við Geldingarárdrögin og þar var ákveðið að snæða nesti í skjóli við stóran hól sem er sunnan við ána. Ósköp var gott að taka af sér bakpokann og setjast niður. Þessi leið er ekki þekkt fyrir mikið landslag en þó stöku hóll hér og þar. Frímann sá að sjálfsögðu til þess að við fengjum að príla upp þessa hóla og fengum við smá salli bunu niður þá hinum megin. Við vorum rúma fjóra tíma á göngu, en klukkan var rétt hálf sjö þegar við komum í Laugafell. Rétt við skálann flugu upp nokkrar rjúpur sem verið höfðu þar í makindum og haldið að þær væru einar í heiminum. Þetta var eina lífið sem við sáum á leiðinni þann daginn. Öfugt við Bergland er skálinn í Laugafelli upphitaður, með vatnsklósettum og heitu vatni. Þar þarf að bræða snjó því ekki er kræsilegt að drekka heita vatnið eða nota í matargerð. Við gengum frá búnaði og teygðum úr okkur. Síðan fór mannskapurinn í þessa frægu laug “Þórunnarlaug” En hún er skírð eftir konu sem hét Þórunn. Þessi upphlaðnalaug er í manngerðri þró frá fyrri tímum. Þjóðsagan segir frá Þórunni á Grund, sem dvaldi þarna með fólki sínu á meðan svartidauði gekk yfir og þá hafi þróin verið klöppuð í móbergið. (Gallinn við söguna er sá, að Þórunn fæddist u.þ.b. öld eftir að svartidauði geisaði.)
Laugin var bæði slímug og hálf köld. Greinilega ekki eins heit og ég var búin að gera mér vonir um. Sátum smá stund þarna og reyndum að finna stað þar sem heitast væri í lauginni. Það var þrekvirki að koma sér uppúr og inn í skálann aftur, og mikið var kalt að kafa snjóinn á tásunum með hríðarkófið á bakinu. En hressandi þegar við höfðum þurrkað okkur og klætt okkur í þurr föt. Sáum ekki eftir að hafa haft okkur í þetta. Elduðum okkur svo mat og sátum og spjölluðum saman. Anna bauð upp á osta og kex. Fórum snemma að sofa því það átti að fara á fætur kl.07:00. Uppúr miðnætti hrukkum við öll upp við það að það var komin einhver hópur góðglaðra manna til að nota wc-in á neðri hæðinni. Greinilega einhverjir sem gistu í hinum skálanum. Eftir það gat ég lítið sofið því það var stanslaus umferð inn og úr skálanum alla nóttina þar til hálf sex um morguninn, en þá var komin tími fyrir okkur að vakna og fara á fætur.
Ég fór á fætur og leit út um gluggann, ég sá að það voru þar einir fimm jeppar á hlaðinu við hinn skálann. Ég sá jafnframt hóp af snjótittlingum flögra um. Fyrsta verk var að sækja meiri snjó til að bræða. Snæddum morgumat, smurðum okkur nesti og gengum frá eftir okkur. Kl.08:55, á áætlun lagði hópurinn af stað áleiðis heim. Veðrið var reyndar ekki eins gott og við höfðum búist við, vindurinn frekar á hægri hliðina. Fljótlega þegar nær dró hádegi fór að hlýna og fengum við hið besta veður það sem eftir var dags. Það var haldið vel áfram. Rúmlega ellefu vorum við komin að Geldingarárdrögunum þar sem við stoppuðum og tókum af okkur bakpokana, snæddum nestið okkar og fylltum á vatns birgðirnar. Sólin fór að skína og yfir okkur flaug stór gæsahópur í oddaflugi, trúlega að sækjast í vatnið eins og við. Við héldum áfram en einhvern vegin komst maður ekkert úr sporunum því snjórinn klessist við skíðin vegna þess að það hafði hlýnað mikið frá því um morguninn. Við stoppuðum til að bera undir skíðin, en Grétar var svo elskulegur að lána okkur rennslis áburð. Notuðum tækifærið og fækkuðum fötum. Sáum hvar nokkrir jeppar brunuðu fram hjá okkur á fullri ferð. Á tímabili var eins og við værum við Laugarveginn. Þetta var nánast hálfgerð sjónmengun í allri kyrrðinni.
Um tvöleytið komum við í Bergland, sáum að töluvert hafði snjóað frá því við skildum við skálann daginn áður því moka þurfti frá skálanum til að komast inn. Tókum okkur góða pásu þar. Hituðum okkur vatn og létum líða úr okkur. Rétt er við vorum að leggja af stað frá skálanum komu þrír vélsleðamenn upp úr Skagafirði. Þeir stoppuðu og spjölluðu við okkur, þeir undruðu sig á því að við værum á göngu svona langt frá mannabyggðum. Nú var farið greitt yfir og ekkert stoppað fyrr en við Sankti Pétur. Sólin skein og við horfðum niður í Eyjarfjörðinn. Þvílík náttúrufegurð, nýfallinn snjór og birtan alveg stórkostleg. Það er ekki hægt að lýsa þessum andstæðum í veðrinu sem við vorum í á föstudag og nú rúmum sólarhring síðar. Þá var bara að setja í sig kjark til að skíða niður þær brekkur sem eftir voru! “Jú, jú ekkert mál” sagði Frímann og skíðaði á undan okkur niður brekkurnar fram á brún þar sem við tókum skíðin af okkur og festum við bakpokana. Löbbuðum niður nýja veginn, en færðum okkur niður á þann gamla þegar við komum á móts við bílana, þar sem við höfðum lagt þeim á föstudeginum. Það hafði snjóað töluvert yfir helgina og sums staðar náði snjórinn mér uppí klof ef ég steig ekki rétt niður. Um sjöleytið komum við á leiðarenda þar sem við lögðum upp fyrir tveimur dögum. Þar skildu leiðir, við kvöddumst sæl og ánægð eftir frábæra ferð í alla staði, þakklát fyrir góða fararstjórn og frábæra ferðafélaga.
Kristín Björnsdóttir