- Skrifstofan
- Félagið
- Ferðir og viðburðir
- Hreyfiverkefni
- Skálar
- Myndir
Gönguferð 21. - 22. júlí 2006
Jæja þá kom að því, Ólöf vinkona mín orðin alveg snar rugluð. Við ætluðum af fara Gönguskarð frá Bleiksmýrardal yfir í Garðsárdal, en svo vantaði einhvern til að keyra okkur austur, svo Ólöfu datt í hug að fara upp í Lamba og gista. Ganga þaðan yfir Þrömina í Nyrðri-Króka og niður Skjóldal. Ég afskrifaði þetta í hvelli, þetta get ég ekki astmagemlingur, sem Ólöf þurfti að draga á slefunni upp á Hvanndalabjarg og niður aftur, því ekki má skilja eftir úrgang eða rusl upp á fjöllum. Ólöf er nú óttalega þver ef hún ætlar sér eitthvað og var nú ekki til í að samþykkja neiið mitt. Jóhanna, Frímann og þau hjónin voru til, en ekki ég. Eftir margvísleg rök fór ég nú samt með, en var sko ekki að fara af því ég gæti þetta ekki. En á föstudaginn var þokan ekkert að gefa sig frekar en hina dagana og þegar Manni keyrði okkur upp að öskuhaugum var dimm þoka og allt sjóblautt.
Ekki gáfulegt veður upp á útsýni til að gera, en logn og ósköp gott veður. Frímann var komin á undan okkur og svo var lagt af stað kl:20:20. Jóhanna formaður Garpa og gella tók forustuna enda Glerárdalur hennar uppáhald og ef þar leynist einhver blettur sem hún hefur ekki marg gengið eru allir hissa. Gangan fram eftir gekk bara vel í þokunni, allt blautt og á köflum fínn úði svo hárið var alveg blautt. Hauki fannst og það með réttu að hægt væri farið. En í Lamba vorum við komin kl: 0:25 að staðar tíma. Vorum oft að tala um hvernig yrði á morgun, því fleiri hugsuðu sér til hreyfings. Það á að vera 24 tindar á 24 tímum. Sé nú ekki alveg til hvers en O.K. þeirra vandamál.
Í Lamba er allt mjög fínt vel um gengið og þokkalegt. Fengum okkur náttverð og kveiktum upp í kabyssunni og fórum svo að sofa. Kl: 06 í morgun komu hendi og fótur fram úr efri kojunni(Haukur var í báðum kojunum kamars megin, fer ekki út í áttir) og reif hurðina upp á gátt. Það var víst vel heitt þarna upp við loft.
Um kl:08 fór fólk að rísa úr rekkju. Eftir morgunmat frágang og þrif var haldið af stað kl:09:30 og mynnst ferðar okkar Ólafar á snjósleða fyrir einhverju síðan. Þá fórum við á sleðanum fram á Þrömina og horfðum niður í Skjóldalinn þangað sem förinni var heitið núna. Það var sól og blíða en fyrst í morgun var þoku að sjá norður fjörðinn. En svo varð líka bjart norður þannig að allir sem eru í og við Glerárdal fá gott veður. Niður við ána er svo heitt að við fækkuðum fötum, fórum úr peysum og utan yfir- eða innan undir buxum, en skórnir voru svo sem jafn blautir.
Frímann er búin að mynda svo mikið af blómum að ég held hann hljóti að gefa út plöntubók fyrir jólin.
Það er nú víða blautt þarna niðri í dalnum, dýjamosi, lækir og litlar ár sem gott var að fá sér vatnssopa úr. Jóhanna á að drekka um leið og ég og ekkert múður. Það eru alveg ótrúlegir litir á steinunum og fallegt að sjá en svo eru þeir líka svolítið erfiðari að fara yfir en mosinn. Fljótlega eru við komin á snjó. Haukur krefst þess að við verðum uppi á Þröminni á hádegi, við hlökkum líka svo til að það komi flugvél sem hendir til okkar mat. Við heyrðum í útvarpinu í gær að 24X24 fólkið fengi vistir svoleiðis og við erum að burðast með yfir 10 kg. á bakinu.
En hægt gengur. Ég er náttúrulega fljót að mæðast og þarf að stoppa til að draga andann. En þau eru nú ótrúlega þolinmóð, en vel að merkja, “ég er sko ekkert að fara þetta því ég veit að ég kemst þetta ekki.” Haukur leiddi hópinn fyrst. Eftir hvíld er svo haldið áfram í snjónum og sólinni. Snjórinn er aðeins farin að klökkna en gott göngufæri samt. Er aðeins farin að efast um hásegismatinn efst í skarðinu, ætli kokkurinn nenni nokkuð að bíða? Nú er Frímann á undan og þegar mesta brekkan er búin er ákveðið að borða í urðinni svolítið fyrir neðan Stórastall. Jóhanna hringdi í Manna og bað hann að láta vita á flugvöllinn að engin flugvél væri komin með mat, en þá heyrðum við vélarhljóð og kættumst, en seinna kom í ljós að þetta var áætlunarvél sem sýndi okkur engan áhuga, skrítið.
Jæja eftir matinn er maður nú þokkalega endurnærður. Búin að belgja sig út af dísætu sítrónutei og smurðu brauði. Þessi síðasta brekka var svo bara ljúf, en snjórinn orðin frekar meir. Haukur leiddi hópinn örugglega upp síðustu metrana. Ekki sáum við neitt hrun úr skriðjöklinum, en það eru flekar að losna sem hrynja svo ef til vill í sumar. Við ákváðum að fara ekki niður hengjuna heldur halda til vinstri og svo beint niður jökulinn, snjórinn mátulega meir og við renndum okkur á hælunum niður mestalla brekkuna, alveg frábært. Undir snjónum heyrðum við svo í vatni renna en snjórinn hélt og enginn sökk í. Þarna í Nyrðri- Krókum erum við ansi hátt uppi og langar að fikra okkur neðar. Þarna er allt landið eiginlega á floti. Melarnir eru bara leðja með steinum og hætta á að sökkva upp fyrir skóna. Þarna eru mörg gil og öll með lækjum og dýjamosa, við reynum að fylgja kindaslóðum, það gefst yfirleitt berst enda vita þær hvar besta leiðin er.
Jæja þá komum að því að fara yfir á sem rennur svo í það sem Lóa segir að sé Kambsá, trúum því og förum yfir áður en þær sameinast. Frímann segir að það verði drukkið upp á hæðinni eftir að við komust upp úr gilinu hjá Kambsá. Á leiðinni niður þessa Nyrðri-Króka sáum við svo rauðu flugvélina með allan matinn, en auðvitað leit hún ekki á þessa göngumenn, kom heldur ekki nógu neðarlega til okkar. En hvað þeir hafa hugsað þegar þeir sáu slóðina eftir okkur upp skarðið og niður hinu megin. Hafa kanski haldið að einhver hafi tapað áttum eða tröllin flúið undan 24X24. Eftir kaffistopp og hvíta lygi hjá Hauk um að flugvélin hafi hent niður súkkulaðikexinu sem hann gaf okkur, (við létum huggast.) var haldið niður tunguna á milli Nyrðri- og Syðri- Króka og alveg niður að ármótum. Hvorug áin var árennileg. Þegar ég fór hérna um árið yfir Kambskarðið og niður Skjóldalinn, fórum við yfir Nyrðri- Króksána á snjóbrú og gengum niður að norðan eftir því sem þau sögðu (fer ekki út í áttir). Þegar þeir Frímann og Haukur voru búnir að kanna allar leiðir var ákveðið að fara yfir Syðri-Kambsána rétt ofan við ármótin. Allar búnar að pissa svo ekki yrði manni mál í miðri á. Allir voru komnir úr skónum og buxunum, búið að ganga vel frá í pokum og signa sig var staulast yfir. Haukur var búin að fara einn yfir til að kanna vaðið og taldi allt í lagi, svo leiddust þau hjónakornin yfir og gekk vel. Þá stauluðumst við Frímann og var nú heldur dýpra á okkur en þeim. Að síðustu fetuðu Haukur og Jóhanna sig yfir og það var svona mis djúpt að sjá á þeim.
Eftir minni klukku sem er að sjálfsögðu rétt, fórum við af stað frá vaðinu kl:17:30 og fetuðum kindaslóðir fyrst mjög blautt utan í skriðunum. Svo fórum við ofar og þá heyrðist ekki svona hátt í ánni, en hún er ansi vatnsmikil í svona hitum. Áfram var svo haldið eftir fjárgötum, þarna voru þær greinilega eftir rekstrarfé en í Nyrðri-Krókum vorum við viss um að áhættufé hefði lagt þær. Þannig er nú landslagið. Við komum svo á Breiðgötu frekar neðarlega í dalnum. Vorum svo sem búin að rekast á öngstræti annarslagið en allt bjargaðist. Á leiðinni niður eftir voru þó nokkuð mörg gil og ég sé mest eftir að hafa ekki talið árnar og lækina sem við fórum yfir frá Lamba og til Ysta-Gerðis, en trúið mér það þarf að hafa langa spýtu og merkja við svo ekki ruglist talningin. Neðarlega í dalnum var hrossastóð sem kom að kanna málið. Haukur reyndi að ná sambandi við þau, en tungumálaörðugleikar sögðu til sín. Niður Skjóldalinn langa leið fylgdi okkur ær með þrjú lömb. Henni fannst við á köflum fara of hægt og reyndi að hvetja okkur með jarmi en gekk nú ekki of vel. Við vorum helst á því að þetta væri gamall heimalingur. Búið var að hringja í einkabílstjórann Manna og kom hann á bílnum þeirra Hauks og Lóu fram í Ysta-Gerði og var mættur þegar við komum þangað kl:20:20. Og enn var sól og blíða. Þegar búið var að hlaða í bílinn var brunað í bæinn. Ósköp var nú ljúft að sitja bara og líða áfram. Þetta var alveg frábærlega skemmtileg ferð þó ekki væri nú bjart yfir í upphafi, en dagurinn í dag var alveg yndislega bjartur og fallegur og til lánsins hægur eða alveg logn allan tímann og ég er nú farin að trúa því að ég komist þetta með góðu fólki á ekki miklum hraða enda bauð veðrið upp á góða útiveru. Ef til vill förum við Gönguskarðið seinna, það er svo sem ekki að fara neitt eftir því sem ég berst veit.
Ásrún Alfreðsdóttir