- Skrifstofan
- Félagið
- Ferðir og viðburðir
- Hreyfiverkefni
- Skálar
- Myndir
Steinmenn - ganga laugardaginn 27. ágúst kl. 13:00
Ferðafélag Akureyrar ætlar að leggja sitt af mörkum á Akureyrarvöku 2022. Félagið boðar því til göngu að Steinmönnum ofan við Kjarnaskóg. Gangan hentar flestum og börn og unglingar hafa eflaust gaman að því að spreyta sig og sjá þessa skemmtilegu steinkarla sem standa á Súlumýrunum í 500 m hæð og horfa yfir bæinn okkar. Frá Steinmönnum er mikið og fallegt útsýni í allar áttir.
Gengið verður frá tjaldstæðinu á Hömrum upp í Gamla sem er gamall skátaskáli. Síðan verður haldið áfram upp á við að Steinmönnum eftir stikaðri leið. Sama leið farin til baka að bílunum.
Vegalengd fram og til baka er 7 – 8 km. Gönguhækkun er um 400 m. Leiðin er greiðfær en gæti verið blaut á köflum. Gangan ætti að taka um 4 klukkustundir í heildina.
Nauðsynlegt er að vera í góðum skóm og klæða sig eftir veðri. Hafa vatn með og smá nesti til að gæða sér á þegar nestisstopp verður. Göngustafi getur verið gott að hafa með ef fólk er vant að nota þá.
Bröttför frá bílastæðinu að Hömrum kl. 13:00. Best er að leggja bílum við skemmuna sem þar er.
Fararstjórn: Herdís Zophoníasdóttir
Frítt er í ferðina og engin skráning, bara mæta á upphafsstað.