Öskjuvegurinn; fjögurra daga ferð: TRÚSSFERÐ

Öskjuvegurinn; fjögurra daga ferð: TRÚSSFERР 

Brottför kl. 8 með rútu frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Kristín Irene Valdemarsdóttir
Bílstjóri: Jón Marinó Sævarsson

Í ferðinni er gengið með lágmarksbúnað. Trússbíll ekur með farangur á milli skála. Bíllinn fylgir hópnum allan tímann. Fólk er beðið að takmarka farangur eins og hægt er. Rúta sækir svo hópinn í lok ferðar. Gist í skálum FFA; Dreka, Dyngjufelli og Botna. Gönguhækkun er lítil á þessari leið.

1. d., sunnudagur: Ekið í Dreka, með viðkomu í Herðubreiðarlindum. Stutt stopp í Dreka þar sem rútan bíður eftir hópnum og ekur svo með hópinn upp á Vikraplan. Þaðan er gengið að Öskjuvatni og komið við í Víti. Síðan er gengið til baka yfir fjöllin og endað í Dreka þar sem er gist. Vegalengd: 13 - 14 km.
2. d., mánudagur: Ekið upp á Vikraplan. Gengið eftir stikaðri leið þaðan, yfir Dyngjufjöll um Jónsskarð og niður í Dyngjufjalladal. Gist í Dyngjufelli, skála FFA. Vegalengd: 14 km.
3. d., þriðjudagur: Frá Dyngjufelli er gengið norður Dyngjufjalladal í Suðurárbotna. Gist í Botna, skála FFA. Vegalengd: 20 - 22 km.
4. d., miðvikudagur: Lokadagur; gömlum jeppaslóða er fylgt frá Botna í Suðurárbotna og meðfram Suðurá að Svartárkoti. Vegalengd: 15 - 16 km. Ekið með rútu til Akureyrar. Gert ráð fyrir að koma þangað um kl. 17.

Hámarksfjöldi 14 manns. Fararstjóri verður í sambandi við þátttakendur nokkru fyrir brottför varðandi útbúnað og fleira.

Verð: 89.500 / 95.000 kr. Innifalið: Trúss, rúta, gisting í þrjár nætur og fararstjórn.
Greiða þarf staðfestingargjald vegna skráningar í þessa ferð kr. 10.000 í síðasta lagi 14 dögum eftir að krafa er stofnuð í netbanka. Þessa ferð þarf síðan að greiða að fullu þremur dögum fyrir brottför. Krafa verður stofnuð í netbanka.

Skráning á biðlista

 

skráning Í Ferð

 

Nokkurra daga trússferð með FFA - góð ráð

 

Í trússferð er farangur fluttur á milli náttstaða svo aðeins þarf að bera nauðsynlegan búnað fyrir einn dag í einu í léttum dagpoka. Mat, svefnpoka, auka fatnaði og tilheyrandi er pakkað ofan í trússtösku og flutt í náttstað.

Þó að ekki þurfi að skera allan útbúnað niður í trússferðum eins og þegar gengið er með allt á bakinu þá er nauðsynlegt að pakka naumt. Oftast er takmarkað pláss í trússbílum og bátum og pökkun þarf að taka mið af því.

Listinn sem birtur er á heimasíðu FFA er aðeins til viðmiðunar og hver og einn ákveður hvað af því fer í dagpokann og hvað fer í trússfarangurinn. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum og lengd ferðar.

Í skálum FFA er eldunaraðstaða og matarílát auk salernis eða kamars.

Búnaður

 

Erfiðar ferðir: Nokkuð langar dagleiðir, 6 - 8 klst. Gengið í fjalllendi og jafnvel lausum skriðum. Getur þurft að vaða erfiðar ár. Ef gist er þá er það oftast í húsum og þá þarf að bera svefnpoka.

ATH. Fararstjóri tekur fram ef annan búnað þarf

Nauðsynlegur búnaður er meðal annars:
Gönguskór sem henta utan slóða og veita góðan stuðning
Bakpoki (dagpoki) gott að hann sé með bakpokahlíf
Göngustafir ef vill
Sólgleraugu, sólarvörn og varasalvi, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
Höfuðljós ef búast má við að ganga í myrkri
Viðeigandi fatnaður, hlífðarföt, sokkar til skiptanna, húfa og vettlingar
Vaðskór ef gefið er upp að það þurfi að vaða
Sjúkragögn, hælsærisplástur, teygjubindi og verkjalyf og annað smálegt
Vatn/drykkir og nesti til dagsins (einnig göngunasl)
Hæfilegt magn af orkuríku nesti og drykkjum (eftir lengd, aðstæðum og fyrirkomulagi ferðar)
Alltaf gott að hafa í bakpokanum: Flugnanet, legghlífar, buff og léttir broddar, viðgerðasett (nál, tvinni, lítil skæri), klemmur
Kort, áttaviti, GPS tæki