Náttúruskoðun og sjálfsrækt á Glerárdal

Náttúruskoðun og sjálfsrækt á Glerárdal  

Brottför kl. 13 frá bílastæðinu við Súluveg.
Fararstjórn: Ásdís Skúladóttir og Birna Guðrún Baldursdóttir
Í bakgarðinum okkar hér á Akureyri er hinn ægifagri Glerárdalur með alla sína tinda og náttúrufegurð. Þangað er ferðinni heitið í skemmtilega og nærandi gönguferð sem felur í sér verkefni til sjálfsræktar, hugleiðslu, köld böð, léttar jógaæfingar, sjálfsþekkingarleiki, heilsufæði svo eitthvað sé nefnt. Gist verður tvær nætur í skála FFA á Glerárdal, Lamba þar sem góð er aðstaða.

1.d., föstudagur: Ganga dagsins er frá bílastæði við Súluveg að Lamba. Gengið eftir stígum og slóðum. Komum okkur fyrir í skálanum, borðum saman, hugleiðum og eigum notalega stund. Vegalengd: 11 km. Gönguhækkun: 400m.

2.d., laugardagur: Ganga dagsins er frá Lamba upp að Tröllunum sem eru sérkennileg berggöng austan Glerár í Tröllafjalli. Þá er gengið niður að vatninu Tröllaspegli þar sem verður áð og hugleitt ef veður leyfir. Vaða þarf yfir Glerána sem er auðvelt á þessum árstíma en gott að hafa vaðskó og göngustafi. Síðan er gengið til baka aftur í Lamba þar sem verður borðað saman ásamt smá kvöldvöku.
Vegalengd: 12-14 km. Gönguhækkun: 450 m.

3.d., sunnudagur: Létt jóga fyrir þá sem vilja. Til byggða verður gengið niður Finnastaðadal og komið að Finnastöðum í Eyjafirði þar sem þarf að sækja göngufólk. Fararstjórar aðstoða við það ef þarf. Gert er ráð fyrir að koma til Akureyrar seinni part dags.
Vegalengd: 11 km. Gönguhækkun: 270 m.

Hámarksfjöldi 12 manns.

Verð: 23.000/26.000. Innifalið: Gisting í tvær nætur og fararstjórn. Sameiginlegur matur greiðist sérstaklega. Fararstjórar sjá um að kaupa inn og elda.
Greiða þarf staðfestingargjald vegna skráningar í þessa ferð kr. 5.000 í síðasta lagi 14 dögum eftir að krafa er stofnuð í netbanka.
Þessa ferð þarf að greiða að fullu fyrirfram, þremur dögum fyrir brottför. Krafa verður stofnuð í netbanka.

Búnaðarlisti

SKRÁNING