Lambi – vetrarferðir

Skálinn Lambi – vetrarferðir

Eftir að ný brú kom yfir Fremri Lambá 2023

Á veturna er gönguleiðin fram Glerárdal í Lamba (11 km) oft mjög snjóþung og seinfarin. Gangandi fólk verður þá annað hvort að vera á skíðum eða snjóþrúgum. Ef er snjólítið eða hjarnfæri, þarf að hafa brodda meðferðis undir skóna.

Best er að fylgja stikuðu leiðinni frá bílastæðinu við Heimari-Hlífá inn bakka Glerár og síðan upp í hlíðina. Eftir 6 km göngu sveigir stikaða leiðin niður undir Glerá og að brúnni á Fremri-Lambá (GPS: 65°36’15,7”N – 18°15’35,4”V), um 100 m ofan ármóta Fremri-Lambár og Glerár. Frá Fremri-Lambá eru um 4 km eftir stikuðu leiðinni fram í skálann (GPS: 65°34’52,04”N – 18°17’44,69”V).

Að vetri er yfirleitt ekkert vatn að hafa við skálann. Þá þarf að bræða snjó til drykkjar. Þegar skálinn er yfirgefinn, er mikilvægt loka öllum gluggum, slökkva öll ljós og loka tvöföldu útidyrunum vandlega, skv. leiðbeiningum á hurðunum.

Athugið að veður getur verið mjög slæmt frammi á Glerárdal þótt sæmilegt veður sé niðri í byggð. Ef ganga skal fram í Lamba í skammdeginu, er mikilvægt að leggja af stað snemma dags, því mjög erfitt getur verið að finna skálann eftir að myrkur er dottið á.

Góða ferð,

Ferðafélag Akureyrar