Ferðaáætlun 2024

Ferðaáætlun FFA 2024

Ferðaáætlun Ferðafélags Akureyrar gildir fyrir eitt ár í senn. Allir eru velkomnir í ferðir félagsins hvort sem þeir eru félagar eða ekki. Börn og unglingar eru einnig velkomin í fylgd með fullorðnum, foreldrar þurfa að meta hvort þeir treysta þeim í ferðirnar. Sérstakar barna- og fjölskylduferðir eru sjö talsins.

Æskilegt er að panta tímanlega í lengri ferðir og þær ferðir þar sem fjöldi þátttakenda er takmarkaður.

Ef afpanta þarf ferð skal senda póst á netfangið ffa@ffa.is, ekki er nóg að hringja vegna afpöntunar.

Þátttökugjald í flestar ferðir er greitt við brottför eða stuttu fyrir ferð. Í nokkrar ferðir á ferðaáætlun 2024 þarf að greiða staðfestingargjald í síðasta lagi 14 dögum eftir að krafa er stofnuð í netbanka. Staðfestingargjaldið fæst ekki endurgreitt nema ef ferð er felld niður. Nánari skýring um greiðslufyrirkomulag kemur fram í viðburði fyrir hverja ferð.

Ferðafélag Akureyrar áskilur sér rétt til að leiðrétta villur, hætta við ferð, fresta ferð eða breyta áætlun vegna veðurs eða annarra utanaðkomandi aðstæðna, svo og ef ekki fæst næg þátttaka. Ef félagið fellir niður ferð fæst staðfestingargjald eða ferð endurgreidd.

Gæludýr: Ef hundaeigandi vill taka hundinn sinn með í gönguferð með FFA þarf hundurinn að vera í taumi. Æskilegt er að taka það fram við skráningu að eigandinn ætli að taka hund með svo fararstjóri viti af því. Eigandi hundsins ber alla ábyrgð á hundinum í ferðinni.
Ef einhver þátttakandi í ferðinni eða fararstjóri er með ofnæmi fyrir hundum eða ekki tilbúinn að fara í ferðina ef hundur er með, þá þarf hundurinn að víkja. Fararstjóri tekur af skarið um það ef þarf. Hundar geta ekki verið með í ferð þar sem rúta flytur hópinn.
ATH. Hundar og öll gæludýr eru ekki leyfð í skálum FFA.

Áætlaður tími ferða er aðeins viðmið og fer eftir hópnum og aðstæðum hverju sinni. Farþegar ferðast með félaginu á eigin ábyrgð. Ferðafélag Akureyrar tryggir hvorki farþega sína né farangur þeirra og hvetur fólk til að kynna sér eigin heimilistryggingar eða kaupa ferða- og slysatryggingu.

Í ferðum Ferðafélags Akureyrar þar sem sameinast er í bíla taka allir þátt í kostnaði með því að greiða bílstjóra hvers bíls fyrir sig.

Ferðaáætlun FFA 2024 til útprentunar

skráning Í Ferð 

Ferðakynningar FFA 2024

 

11. janúar kl. 20:00 að Strandgötu 23.

Skíðaferðir 2024 kynntar sérstaklega í máli og myndum. Einnig verður nýtt fyrirkomulag skíðaferða kynnt. Fararstjórar mæta á svæðið, segja frá og bjóða upp á spjall. Auk þess verða skíðaverkefni vetrarins kynnt.

15. febrúar kl. 20:00 að Strandgötu 23.

Sumarleyfisferðir 2024 kynntar sérstaklega í máli og myndum í húsnæði FFA, Strandgötu 23. Fararstjórar mæta á svæðið, segja frá og bjóða upp á spjall.
Ferðir sem kynntar verða sérstaklega:
- Öskjuvegurinn, fimm daga trússferð
- Krepputunga-Sönghofsdalur
- Náttúruskoðun og sjálfsrækt á Glerárdal
- Herðubreiðarlindir-Bræðrafell-Askja
- Helgarferð á Herðubreið

 

4. apríl kl. 20:00 í VMA.

Þá verður ferðaáætlunin í heild sinni kynnt auk hreyfiverkefna sumarsins. Barna- og fjölskyldustarfið verður einnig kynnt. Gestur kvöldisins verður Ragnhildur Jónsdóttir. Erindið hennar heitir "Aconcagua 7000m - hvers vegna?". Þar segir hún frá ferð sinni á hæsta tind Suður Ameríku og hæðaraðlögun í þremur heimsálfum".

Kynningin er í VMA og hefst kl. 20:00, gengið inn að vestan.

Hér má sjá kynninguna í heild sinni

 

Skíðaferðir í febrúar, mars og apríl

 

Í febrúar, mars og apríl 2024 ætlar FFA að prófa nýtt fyrirkomulag á skíðagönguferðum. Í stað þess að setja allar ferðir á ákveðna daga vill ferðanefnd hafa fyrirkomulagið sveigjanlegra og geta ákveðið með ferðir eftir því hvar besta skíðafærið er hverju sinni. Hér fyrir neðan er listi með 13 ferðum sem fyrirhugaðar eru og verða ferðir valdar úr listanum eftir snjóalögum og veðri hverju sinni. Hægt er að skrá sig fyrirfram í ferð og verður þá starfsmaður á skrifstofu í sambandi við viðkomandi um ferðina.

Valið verður á milli þessara ferða í febrúar, mars og apríl 2024 eftir aðstæðum:

  • Bakkar Eyjafjarðarár: Skíðaganga 
  • Vaðlaheiði: Skíðaganga 
  • Vaglaskógur: Skíðaganga 
  • Mývatnssveit: Skíðaganga 
  • Baugasel í Barkárdal: Skíðaganga 
  • Súlumýrar: Skíðaganga 
  • Illugastaðir - Sörlastaðir í Fnjóskadal: Skíðaganga 
  • Skíðadalur: Skíðaganga 
  • Stöng - Þverá í Laxárdal: Skíðaganga 
  • Heljardalsheiði: Skíðaganga 
  • Mosi í Böggvisdal: Skíðaganga 
  • Fljótsheiði: Skíðaganga, eyðibýli skoðuð 
  • Fljótsheiði - Hafralækur: Skíðaganga 

 

Veldu mánuð: Janúar Febrúar Mars Apríl Maí Júní Júlí Ágúst September

Janúar

1. janúar: Út í óvissuna á nýársdag 

 

Brottför kl. 13 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Grétar Grímsson
Þátttaka ókeypis.

 

Febrúar

Í febrúar er fyrirhugað að fara í þrjár skíðagönguferðir. Hvaða ferðir verða fyrir valinu, hvenær og hvert verður farið ræðst af snjóalögum og veðri. Áætlað er að ferðirnar taki 3-5 klst. Ef útlit er fyrir að hægt verði að fara í ferð á laugardegi verður það auglýst á miðvikudegi. Áhugasamir eru því beðnir að fylgjast vel með og skrá sig með góðum fyrirvara.

Laugardagur 3. febrúar - ferð auglýst miðvikudaginn 31. janúar.
Laugardagur 10. febrúar - ferð auglýst miðvikudaginn 7. febrúar.
Laugardagur 17. febrúar - ferð auglýst miðvikudaginn 14. febrúar
Laugardagur 24. febrúar - ferð auglýst miðvikudaginn 21. febrúar.

 

Mars

Í mars er fyrirhugað að fara í þrjár skíðagönguferðir. Hvaða ferðir verða fyrir valinu, hvenær og hvert verður farið ræðst af snjóalögum og veðri. Áætlað er að ferðirnar taki 3-5 klst. Ef útlit er fyrir að hægt verði að fara í ferð á laugardegi verður það auglýst á miðvikudegi. Áhugasamir eru því beðnir að fylgjast vel með og skrá sig með góðum fyrirvara.

Ein ferð hefur verið ákveðin, helgarferð í Lamba sjá hér 

Laugardagur 9. mars - ferð auglýst miðvikudaginn 6. mars.
Laugardagur 16. mars - ferð auglýst miðvikudaginn 13. mars.
Laugardagur 23. mars - ferð auglýst miðvikudaginn 20. mars.

2.-3. mars: Helgarferð: Skíðaganga í Lamba  

 

Brottför kl. 13 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Bernard Gerritsma og Bóthildur Sveinsdóttir
Gangan hefst á bílastæðinu við Súluveg. Gengið er inn að Lamba, skála FFA á Glerárdal og gist þar eina nótt. Næsta dag verður nánasta umhverfi skálans skoðað í vetrarskrúða og sama leið farin til baka. Í ferðinni njóta þátttakendur dásemda fjallahringsins á útivistarsvæði Akureyringa.
Vegalengd alls 22 km. Gönguhækkun 440 m.
Verð: 8.500/10.500. Innifalið: Gisting og fararstjórn.

Apríl

Í apríl er fyrirhugað að fara í þrjár skíðagönguferðir. Hvaða ferðir verða fyrir valinu, hvenær og hvert verður farið ræðst af snjóalögum og veðri. Áætlað er að ferðirnar taki 3-5 klst. Ef útlit er fyrir að hægt verði að fara í ferð á laugardegi verður það auglýst á miðvikudegi. Áhugasamir eru því beðnir að fylgjast vel með og skrá sig með góðum fyrirvara.

Laugardagur 6. apríl - ferð auglýst miðvikudaginn 3. apríl.
Laugardagur 13. apríl - ferð auglýst miðvikudaginn 10. apríl.
Laugardagur 20. apríl - ferð auglýst miðvikudaginn 17. apríl.

27. apríl: Grenivíkurfjall (gönguferð) 

 

Brottför kl. 10 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.

Fararstjórn: Bernard Gerritsma og Bóthildur Sveinsdóttir
Fjallið er ofan við Grenivík og sunnan við Kaldbak. Gengið er í melum og móum eða á snjó ef svo ber undir. Uppi í 500 m hæð blasir allur fjörðurinn við augum. Þetta er tiltölulega þægileg ganga, hvergi bratt. Hugsanlega eru blautir kaflar eða snjór á leiðinni og því betra að vera í góðum skóm sem þola bleytu.
Gott er að taka með sér vatn því ekkert vatn er á leiðinni.
Vegalengd alls 4-5 km. Gönguhækkun 300-400 m.
Verð: 2.500/4.000. Innifalið: Fararstjórn.

 

Maí

3.-5. maí: Helgarferð: Skíðaganga í Laugafell

 

Brottför kl. 13 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Aðalsteinn Árnason og/eða Halldór Halldórsson
Um er að ræða þriggja daga vetrarferð sem krefst viðeigandi vetrarbúnaðar. Gist verður í skálunum Berglandi og Laugafelli.

1. d., föstudagur: Hólsgerði - Bergland
Ekið að Hólsgerði og skíðin spennt á gönguhópinn. Gist í Berglandi.
Vegalengd 15 km. Hækkun 840 m.

2. d., laugardagur: Bergland - Laugafell
Ef veður er gott þá verður gengið um Sesseljubæ í Geldingsárdrögum á leiðinni í Laugafell.
Laugin í Laugafelli bíður ylvolg eftir lúnum göngumönnum. Gist í Laugafelli.
Vegalengd um 20 km. Gönguhækkun óveruleg.

3. d., sunnudagur: Laugafell - Hólsgerði
Stefnt á að vera komin að fremsta bæ í Eyjafirði fyrir myrkur.
Vegalengd 35 km, töluvert undan fæti í lok dags.

Um vetrarferð er að ræða og þurfa þátttakendur að vera útbúnir samkvæmt því. Nauðsynlegur búnaður eru utanbrautarskíði með stálköntum, hlýr fatnaður, hlýir skór, bakpoki eða púlka.
Verð: 13.000/16.500. Innifalið: Gisting í tvær nætur og fararstjórn.

4. maí: Upp með Hrappsstaðaá   

 

Brottför kl. 10 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Herdís Zophoníasdóttir
Gengið er upp með Hrappsstaðaá meðfram gili sem oft er nefnt Kífsárgil. Þægileg ganga upp með gilinu þar sem fossar og flúðir gleðja augað. Gott er að setjast niður ofan við gilið, fá sér nesti og njóta útsýnisins.
Vegalengd alls 6 km. Gönguhækkun: 460 m.
Verð: 2.500/4.000. Innifalið: Fararstjórn.

Þessari ferð var aflýst vegna ófærðar. Hugsanlegt er að hafa hana sumarið 2024 eða þá í október 2024.

11. maí: Þingmannahnjúkur - Skólavarða  

Brottför kl. 9 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Þuríður Helga Kristjánsdóttir
Ekið að Eyrarlandi. Gengið upp á Þingmannahnjúk og þaðan að gamalli steinbrú, grjóthleðslu frá 1871. Frá brúnni er stefnan tekin á Skólavörðu og síðan gengið til baka að Eyrarlandi.
Vegalengd um 12 km. Gönguhækkun um 660 m.
Verð: 2.500/4.000. Innifalið: Fararstjórn.

 

18. maí: Arnarstaðaskál í Eyjafirði   

 

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Jónína Sveinbjörnsdóttir og Helga Sigfúsdóttir sem er heimamanneskja á staðnum.
Arnarstaðaskál í Eyjafirði er snotur, gróin skál eða sylla í fjallinu fyrir ofan Arnarstaði fram í Eyjafirði að austan. Þægilegt gönguland, að mestu bílslóð og kindagötur. Nestisstopp verður tekið á leiðinni þar sem ljúft er að njóta útsýnis og kyrrðar. Sama leið farin til baka.
Vegalengd alls 9 km. Gönguhækkun: 450 m.
Verð: 3.500/5.000. Innifalið: Fararstjórn.

22. maí: Barna- og fjölskylduferð: Fuglaskoðunarferð


Brottför kl. 17 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Jón Magnússon og Sverrir Thorstensen
Fuglaskoðunarferð barnanna hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár en í henni gefst börnum tækifæri til að kíkja á og fræðast um hinar ýmsu fuglategundir undir skemmtilegri leiðsögn Jóns og Sverris sem eru miklir áhugamenn um fugla. Gott er að taka með sér sjónauka og skriffæri því það getur verið gaman að skrá niður þær fuglategundir sem maður sér.
Þátttaka ókeypis.

25. maí: Fuglaskoðunarferð á Melrakkasléttu    

 

Brottför kl. 8 með rútu frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Jón Magnússon og Sverrir Thorstensen
Árleg fuglaskoðunarferð FFA undir leiðsögn kunnáttumanna og að þessu sinni liggur leið okkar út á Melrakkasléttu. Einstök og fjölbreytt fuglafána er út á Sléttu. Fararstjórar velja þá staði sem vænlegastir eru til fuglaskoðunar á þessum árstíma. Þátttakendur þurfa að taka með sér nesti til dagsins.
Verð: 18.500/20.500. Innifalið: Rúta og fararstjórn.

Júní

1. júní: Staðartunguháls að Hrauni í Öxnadal

 

Brottför kl. 8:30 á einkabílum frá Þelamerkurskóla.
Fararstjórn: Brynhildur Bjarnadóttir
Ferðafélag Akureyrar og Ferðafélagið Hörgur standa saman að skemmtilegri göngu sem hefst við Staðartunguháls og endar við Hraun í Öxnadal. Gengið upp Staðartunguhálsinn og í framhaldinu eftir fjallsegginni/hálsinum sem skilur að Hörgárdal og Öxnadal. Á leiðinni er falleg fjallasýn til beggja handa og ofan í dalina tvo. Gangan endar við Hraun í Öxnadal en þar þarf að skilja eftir einhverja bíla í upphafi ferðar til að koma bílstjórum til baka að upphafsstað.
Vegalengd: 13-14 km. Gönguhækkun um 600 m.
Þátttaka ókeypis.

 

3. júní: Barna- og fjölskylduferð: Heimsins stærsta fjársjóðsleit (Geocaching)

 

Mæting kl. 17 í Kjarnakot í Kjarnaskógi.
Fararstjórn: Ragnheiður Ragnarsdóttir og Sunna Björk Ragnarsdóttir
Fótgangandi fjarsjóðsleit þar sem farið er eftir hnitum til að finna fjársjóði sem aðrir hafa falið í skóginum. Gott að vera búin að sækja Geocaching appið. Þeir sem vilja geta tekið með sér ,,smáfjársjóði” (t.d. legókalla eða annað smádót) og skipt þeim út fyrir nýja í fjársjóðskistunum.
Þátttaka ókeypis. 

8. júní: Flatey á Skjálfanda

 

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Margrét Kristín Jónsdóttir
Ekið til Húsavíkur, siglt þaðan með Norðursiglingu út í Flatey. Siglingin og tekur um tvær klukkustundir. Náttúra og mannvirki eyjunnar skoðuð undir leiðsögn. Boðið verður upp á kaffi/kakó/te í Bjarmaskúr í lok göngu. Áætlaður tími í eyjunni um 2-3 klst. Siglt til baka til Húsavíkur seinnipartinn. Stoppað við Gatanöf á heimleiðinni fyrir þá sem vilja.
Verð: 22.000/24.000. Innifalið: Sigling, hlýir gallar, kakó og snúðar um borð, fararstjórn, leiðsögn um eyna og kaffi/kakó/te.

13. júní: Barna- og fjölskylduferð: Kvöldferð á Þengilhöfða

 

Brottför kl. 19 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Hulda Jónsdóttir
Ekið út á Grenivík og gengið upp á Þengilhöfða sem er u.þ.b. 260 m hár en þaðan er skemmtilegt útsýni yfir Eyjafjörð. Stutt og þægileg ganga.

Þátttaka ókeypis.

15. júní: Fjögurra tinda ferð í Eyjafirði. Laufásstrandarfjöllin

 

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Hulda Jónsdóttir 
Gangan hefst við malarnámuna við þjóðveginn milli Ystuvíkur og Fagrabæjar. Gengið er upp á Ystuvíkurfjall sunnan við Hranárskarð, að hluta til eftir fjárgötum meðfram brúninni suður að vörðu á fjallinu. Síðan er gengið norður á Kræðufell, þaðan niður í Fagrabæjargil og upp á Dýrðarnípu. Haldið er norður yfir Dýrðarbungu og á Laufáshnjúk. Síðustu 300 metrarnir eru svolítið brölt. Að lokum er farið niður af Laufáshnjúk þar sem bílar munu bíða en byrja þarf á að ferja bíla þangað. Útsýnið af fjöllunum er mikið og geysifagurt bæði til suðurs og norðurs. Aðeins hluti leiðarinnar er stikaður.
Vegalengd alls 11-12 km. Gönguhækkun um 1000 m.
Verð: 5.000/6.500. Innifalið: Fararstjórn.

18. júní: Gönguvika: Gásir og Skipalón  

 

Brottför kl. 19 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Björn Vigfússon sögumaður og Þorgerður Sigurðardóttir
Gásir við Eyjafjörð var verslunarstaður á miðöldum og má þar sjá friðlýstar fornleifar. Gengið um svæðið, rýnt í söguna og ummerki fornrar byggðar skoðuð. Síðan verður gengið að Skipalóni en sá staður kemur við sögu í bókum Jóns Sveinssonar, Nonni og Manni. Þægileg ganga en þó um gróið land og móa. Gott að vera í góðum skóm.
Vegalengd: 7-8 km. Gönguhækkun óveruleg. Selflytja þarf bíla á milli staða, en það er örstutt.

Þægileg ganga mest megnis um vegi og slóða.
Vegalengd: 5-6 km. Gönguhækkun óveruleg. Selflytja þarf bíla á milli staða, en það er örstutt.
Verð: 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn.

19. júní: Gönguvika: Sólstöðuganga í Hrísey   

 

Brottför kl. 18:30 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Jóhannes Áslaugsson og Marína Sigurgeirsdóttir.
Ekið út á Árskógssand þaðan sem ferjan fer kl. 19.30. Gengið suður og austur í gegn um þorpið með staðkunnugu leiðsögufólki. Síðan er haldið norður gönguleið austan á eynni norður að Borgabrík, þaðan til baka inn í þorpið. Gott útsýni yfir á Látraströnd og inn Eyjafjörð. Nestisstopp; staður fer eftir veðri. Ferjan tekin til baka kl. 23.00.
Verð: Samkvæmt gjaldskrá í ferjuna. 

 

20. júní: Gönguvika: Þingmannavegur

Brottför kl. 18 með rútu frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Jóhanna Ásmundsdóttir
Ekið að Systragili í Fnjóskadal. Þaðan verður gengið yfir Vaðlaheiði, komið niður við Eyrarland Eyjafjarðarmegin. Þetta er gömul þjóðleið og því tilvalið að skoða gömlu steinbrúna, grjóthleðslu frá 1871. Að mestu er gengið eftir slóðum. Endað er á því að ganga frá Eyrarlandi að Skógarböðunum þar sem gert er ráð fyrir að borða á Skógur Bistro og fara í Skógarböðin á eftir. Rútan sækir svo hópinn kl. 22. Ef fólk vill skilja eftir bíla við Skógarböðin í upphafi ferðar þá er hægt að taka rútuna þaðan á leið austur.
Vegalengd alls um 13 km. Gönguhækkun um 530 m.
Verð: 6.500/8.000. Innifalið: Rúta og fararstjórn. Ekki innifalið: Matur og aðgangur að Skógarböðunum.

21. júní: Gönguvika: Draflastaðafjall

Brottför kl. 19 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Herdís Zophoníasdóttir
Gengið frá bílastæði efst á Víkurskarði upp á fjallið og síðan eftir fjallinu eins og hugurinn girnist. Þarna geta verið falleg sumarkvöld. Gönguland: Gróður, gengið utan slóða. Sama leið farin til baka.
Vegalengd alls 5-8 km. Gönguhækkun: 400 m.
Verð: 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn.

22. júní: Gönguvika: Sólstöðuganga á Múlakollu

Brottför kl. 20 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Bernard Gerritsma og Bóthildur Sveinsdóttir
Gengið upp á Múlakollu frá gamla Múlaveginum, upp dalinn norðan Brimnesár. Geysimikið útsýni er til allra átta af hátindi kollunnar. Sama leið farin til baka.
Vegalengd: 8 km. Gönguhækkun: 930 m.
Verð: 2.500/4.000. Innifalið: Fararstjórn.

29. júní: Elliði í Hjaltadal, Skagafirði 

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Una Þórey Sigurðardóttir
Ekið aðeins fram í Víðinesdal eftir nýlegum bílfærum slóða og þaðan gengið eftir smalaslóða upp á Almenningsháls. Þaðan er svo gengið út Elliða (894 m) og niður að afréttarhliði þar sem bíll hefur verið skilinn eftir. Mikið útsýni miðað við hæð, kannski ekki fyrir mjög lofthrædda en hægt er að ganga vestan í fjallinu þar sem það er mjóst. Hækkunin er aflíðandi, hvergi mjög bratt þar sem gengið er.
Vegalengd: 15-16 km. Gönguhækkun: 700-800 m.
Verð: 3.500/5.000. Innifalið: Fararstjórn.

29. júní: Barna- og fjölskylduferð: Hólmatungur - Vesturdalur

 

Brottför kl. 9 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Ragnheiður Ragnarsdóttir og Sunna Björk Ragnarsdóttir
Ekið er frá Akureyri sem leið liggur austur í Hólmatungur. Þar sem gengið er í ævintýralegu landslagi í nálægð við Jökulsá á Fjöllum. Á leiðinni þarf að vaða Stallá. Hún er grunn en köld svo það er bara hressandi. Þegar í Vesturdal er komið verður slegið upp grillveislu þar sem hver og einn kemur með sinn mat á grillið.
Þeir sem vilja geta gist á eigin vegum á tjaldsvæðinu í Vesturdal og er þá upplagt að ganga daginn eftir frá Vesturdal niður í Ásbyrgi.
Vegalengd um 8 km.
Þátttaka ókeypis.

 

Júlí

6. júlí: Kerling: Sjö tinda ferð


 Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23 og með rútu frá bílastæði við Súluveg.
Fararstjórn: Bernard Gerritsma og Bóthildur Sveinsdóttir
Ekið á einkabílum að bílastæðinu við Súluveg þar sem bílarnir eru skildir eftir. Þar bíður rúta sem ekur þátttakendum að Finnastöðum þaðan sem gengið er á Kerlingu 1538 m, hæsta fjall í byggð á Íslandi. Síðan er gengið norður eftir tindunum; Hverfanda 1320 m, Þríklökkum 1360 m, Bónda 1350 m, Litla Krumma, Stóra Krumma, Syðri-Súlu 1213 m, Ytri-Súlu 1143 m og niður í Glerárdal þar sem bílar þátttakenda bíða.
Þetta er krefjandi ganga enda merkt fjögurra skóa ferð. Þátttakendur þurfa að vera í góðu gönguformi. Gangan getur tekið 12 klst. en það fer allt eftir hópnum, færð og veðri. Þátttakendur þurfa að klæða sig eftir veðri og taka með sér gott og orkuríkt nesti til dagsins og nóg af vatni þar sem ekki er víst að vatn sé að finna á leiðinni. Gott að hafa brodda meðferðis.
Vegalengd: 20-21 km. Gönguhækkun alls 1800 m.
Verð: 10.000/12.000. Innifalið: Rúta og fararstjórn.

6.-7. júlí: Krepputunga - Sönghofsdalur   

 

Brottför kl. 16 á einkabílum (jeppum/jepplingum) frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Ingvar Teitsson
6. júlí, laugardagur: Ekið í Möðrudal og gist á tjaldsvæðinu þar. Til að komast þaðan í Krepputungu þarf að vera á jeppum eða jepplingum.
7. júlí, sunnudagur: Lagt er af stað á sunnudagsmorgni kl. 8 frá tjaldsvæðinu í Möðrudal. Ekið að Kreppubrú og bílum lagt. Þaðan er gengið á söndum út í tunguna í átt að ármótum, um Sönghofsdal og ummerki um gamla árfarvegi skoðaðir. Þeir sem vilja, gista aftur í Möðrudal.
Vegalengd alls um 18 km. Gönguhækkun óveruleg.
Verð: 5.000/6.500. Innifalið: Fararstjórn. Ekki innifalið: Ferðir og gisting í Möðrudal.

13. júlí: Torfufell í Eyjafirði

 

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Arnar Bragason
Torfufell er 1244 m hátt. Ekið er að Hólsgerði en bíll skilinn eftir við Torfufell, þar sem gangan endar. Gangan á fjallið hefst við fremsta bæinn, Hólsgerði. Gengið er upp brekkurnar og stefnt á flata í fjallshryggnum sunnan við Ytri-Skarðshnjúk. Þaðan er svo fjallshryggnum fylgt á fjallsbrúnina. Í efri hluta leiðarinnar eru nokkuð grófar urðir en engir klettar. Þegar upp er komið er gengið eftir sléttu fjallinu að myndarlegri landmælingavörðu á hábungunni. Torfufell ber yfir nágrannafjöllin og er víðsýnt inn yfir öræfin og í góðu skyggni sér m.a. til Snæfells, Dyngjufjalla, Kverkfjalla og Bárðarbungu. Til baka er gengið um Lambárdrag niður til Villingadals og Torfufellsánni fylgt að bænum Torfufelli. Skilja þarf eftir einhverja bíla við bæinn Torfufell.
Vegalengd alls 16 km. Gönguhækkun: 800 m.
Verð: 5.000/6.500. Innifalið: Fararstjórn.

14. júlí: Söguferð í Víðasel: "Á völtum fótum"

 

Brottför kl. 10 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Erla Sigurðardóttir
Árni Jakobsson skráði sjálfur ævisögu sína „Á völtum fótum“. Í göngunni er rakinn æviferill Árna og um margt sérstakt lífshlaup þessa fatlaða manns við kröpp kjör alþýðufólks og frumstæða búskaparhætti. Gengið frá suðvesturenda Másvatns um götuslóða að Víðaseli. Síðan að Austurgróf og út með henni að fossi efst í Austurgili. Frá gilinu er gengið yfir Víðafellið og að bílunum. Gangan að Víðaseli er mjög greið, með grófinni og austur yfir Víðafellið er gengið um ótroðnar slóðir, mólendi og mel. Afar víðsýnt er frá Víðaseli og af Víðafelli. Gangan er auðveld og hentar öllum kynslóðum, tilvalin fjölskylduganga. Þeir sem ekki treysta sér í göngu um órutt mólendi geta auðveldlega gengið sömu leið til baka frá Víðaseli að Másvatni.
Vegalengd: 7,5 km. Gönguhækkun: 150 m.
Verð: 2.500/4.000. Innifalið: Fararstjórn.  

14.-17. júlí: Herðubreiðarlindir - Bræðrafell - Askja

Brottför kl. 8 með rútu frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Fjóla Kristín Helgadóttir og Hjalti Jóhannesson.
Ekið með rútu í Herðubreiðarlindir. Gist er í skálum FFA við Bræðrafell og Drekagil. Bera þarf allan farangur og því mikilvægt að huga að því sem tekið er með. Svæðið sem farið er um státar af fallegum hraunmyndunum, auðn, litadýrð og ekki síst mikilli kyrrð. Nálægðin við Herðubreið hefur líka sín áhrif.

1.d., sunnudagur: Ekið í Herðubreiðarlindir. Eftir kaffi er gengið um greiðfært hraun í Bræðrafell og gist þar. Taka þarf með vatn til dagsins.
Vegalengd: 19 km.

2.d., mánudagur: Gengið á Kollóttudyngju og Bræðrafell skoðað. Gist í Bræðrafellsskála aðra nótt.
Vegalengd: 8-12 km.

3.d., þriðjudagur: Gengið frá Bræðrafelli í Drekagil. Gist í skála FFA við Drekagil.
Vegalengd: 21-22 km.

4. d., miðvikudagur: Gengið frá Dreka yfir Dyngjufjöll að Öskju. Ekið heim um kvöldið.
Vegalengd: 10-11 km. Gönguhækkun er óveruleg.

Hámarksfjöldi 14 manns.

Verð: 64.000/69.000. Innifalið: Rúta, gisting í þrjár nætur og fararstjórn. 

20. júlí: Seljahjallagil í Mývatnssveit


Brottför kl. 8 á einkabílum (jeppum) frá FFA, Strandgötu 23. Jeppar (óbreyttir) eru nauðsynlegir frá Hverfjalli.
Fararstjórn: Þóroddur F. Þóroddsson
Ekið að Hverfjalli í Mývatnssveit og lagt af stað þaðan kl. 09:30. Lúdentsborgir skoðaðar og ekið upp á hjallann norðan Seljahjallagils. Bílar skildir eftir og gengið niður í gilið og mikilfenglegar stuðlabergsmyndanir skoðaðar. Gengið niður gilið og frá gilinu um sandorpið hraun og um Mela og sandöldur með melgresi sunnan Villingafjalls. Gengið norðvestan við fjallið um úfið hraun og eftir jeppaslóða niður að vatni á Garðsgrundum.
Vegalengd alls 12 km. Mest gengið niður í móti eða um 300 m lækkun.
Verð: 3.500/5.000. Innifalið: Fararstjórn. 

21. júlí: Þeistareykir: Rafhjólaferð

 

 

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Jón M. Ragnarsson og Stefán Sigurðsson
Ekið að Þeistareykjavirkjun. Lagt af stað þaðan og hjólað suður með Bæjarfjalli, síðan til austurs sunnan við Kvíhólafjöll og Þórunnarfjöll austur að Gjástykki og norður með því þar til beygt verður til vesturs, allt á gömlum slóðum. Kíkt verður á Stóra-Víti sem er gríðarstór sprengigígur, um 300 m í þvermál. Þaðan liggur svo leiðin áfram til vesturs og niður Bóndhólsskarð að Þeystareykjavirkjun. Þeir sem eiga flutningsfestingu fyrir hjól nota hana, aðrir geta fengið hjólin flutt á hjólakerru.
Vegalengd: 35-40 km. Óveruleg hækkun er á þessari leið.
Verð: 6.000/7.500. Innifalið: Fararstjórn og flutningur á hjólum á hjólakerru fyrir þá sem þurfa. 

21.-25. júlí: Öskjuvegurinn; fimm daga ferð: TRÚSSFERР

 

Brottför kl. 13 með rútu frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Guðlaug Ringsted
Bílstjóri: Gísli Sigurgeirsson.
Í ferðinni er gengið með lágmarksbúnað. Trússbíll ekur með farangur á milli skála. Bíllinn fylgir hópnum allan tímann. Fólk er beðið um að takmarka farangur eins og hægt er. Rúta sækir svo hópinn í lok ferðar. Gist í skálum FFA við Drekagil, í Dyngjufelli og Botna.

1.d., sunnudagur: Ekið í Dreka, með viðkomu í Herðubreiðarlindum. Gist í Dreka.

2.d., mánudagur: Gengið eftir stikaðri leið frá Drekagili, yfir Dyngjufjöll að Öskju. Komið við í Víti. Hópurinn verður sóttur á bílastæðið við Öskjuop og ekið til baka að Dreka, gist þar aðra nótt. Vegalengd: 13-14 km.

3.d., þriðjudagur: Ekið upp í Öskjuop. Gengið eftir stikaðri leið þaðan, yfir Dyngjufjöll um Jónsskarð og niður í Dyngjufjalladal. Gist í Dyngjufelli, skála FFA. Vegalengd: 14 km.

4.d., miðvikudagur: Frá Dyngjufelli er gengið norður Dyngjufjalladal í Suðurárbotna. Gist í Botna, skála FFA. Vegalengd: 20-22 km.

5.d., fimmtudagur: Lokadagur; gömlum jeppaslóða er fylgt frá Botna í Suðurárbotna og meðfram Suðurá að Svartárkoti. Vegalengd: 15-16 km.
Ekið með rútu til Akureyrar. Gert ráð fyrir að koma þangað um kl. 17.

Hámarksfjöldi 14 manns.

Verð: 93.500/98.500. Innifalið: Gisting í fjórar nætur, rúta og trússbíll með bílstjóra, fararstjórn.

27. júlí: Laufáshnjúkur

 

Brottför kl. 9 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Arnar Bragason
Laufáshnjúkur er 662 m hár. Lagt er á hnjúkinn frá loftnetsmastri sem er við upphaf leiðarinnar. Gangan á fjallið er nokkuð auðveld en þó er síðasti hlutinn nokkuð brattur. Þegar komið er á hnjúkinn er mjög gott útsýni yfir Höfðahverfið, út Eyjafjörðinn og fram í Eyjafjarðardali. Sama leið farin til baka.
Vegalengd alls 6,5 km. Gönguhækkun: 630 m.
Verð: 2.500/4.000. Innifalið: Fararstjórn.

 

Ágúst

10. ágúst: Búrfell í Mývatnssveit  

 

-

Brottför kl. 8 á einkabílum (jeppum) frá FFA, Strandgötu 23. Jeppar (óbreyttir) eru nauðsynlegir frá Hverfjalli.
Fararstjórn: Þóroddur F. Þóroddsson
Ekið að Hverfjalli, lagt af stað þaðan kl. 9:30. Ekið suður með Lúdentsborgum og austur fyrir Hvannfell. Gengið frá Hvannfelli um slétt helluhraun (komið við hjá Lofthelli) og austur með rótum Búrfells að sunnan. Ganga á Búrfell upp brattar skriður, upp í gegnum hraunhaft í fjallsbrúninni og á hátindinn. Sama leið farin til baka. Á bakaleið er gengið um helluhraun, suður fyrir Sauðahnjúk og norður með Hvannfelli að bílastæði.
Vegalengd: 14-15 km. Gönguhækkun og lækkun um 600 m.
Verð: 5.000/6.500. Innifalið: Fararstjórn.

16.-17. ágúst: Barna- og fjölskylduferð: Skíðadalur

 

Brottför kl. 17 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Herdís Zophoníasdóttir
Ekið á einkabílum vestur í Skíðadal að bænum Kóngsstöðum. Þaðan er gengið inn í Stekkjarhús þar sem verður gist, sú ganga er um 3 km. Um kvöldið er sameiginlegt grill. Daginn eftir verða leikir og létt gönguferð um svæðið og ekið heim seinni part dags.
Verð: 9.500/13.000 fyrir fullorðna, frítt fyrir börn. Innifalið: Gisting í eina nótt fyrir einn fullorðinn og börn og fararstjórn.

16.-18. ágúst: Helgarferð á Herðubreið


Brottför kl. 17 á einkabílum (góðum jeppum) frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Anna Sigrún Rafnsdóttir, Kristján Hreinsson og Selma Sigurðardóttir Malmquist
Árleg ferð FFA á þjóðarfjallið Herðubreið (1682 m). Gist í Dreka, í skála FFA eða í tjaldi. Nauðsynlegt að vera á jeppum sem komast að uppgöngunni á Herðubreið. Hjálmur er nauðsynlegur öryggisbúnaður. Ef annar búnaður er nauðsynlegur lætur fararstjóri vita áður en ferð er farin.

1.d., föstudagur: Lagt af stað frá Akureyri kl. 17. Ekið í Dreka, gist þar.

2.d., laugardagur: Gengið á Herðubreið. Gist aftur í Dreka.

3.d., sunnudagur: Haldið heim. Gert ráð fyrir að koma til Akureyrar seinnipart dags.

Gönguhækkun: 1000 m.
Verð: Í skála 19.500/24.500. Í tjaldi 14.500/16.500. Innifalið: Gisting í tvær nætur og fararstjórn.

16.-18. ágúst: Náttúruskoðun og sjálfsrækt á Glerárdal

 

Brottför kl. 13 frá bílastæðinu við Súluveg.
Fararstjórn: Ásdís Skúladóttir og Birna Guðrún Baldursdóttir
Í bakgarðinum okkar hér á Akureyri er hinn ægifagri Glerárdalur með alla sína tinda og náttúrufegurð. Þangað er ferðinni heitið í skemmtilega og nærandi gönguferð sem felur í sér verkefni til sjálfsræktar, hugleiðslu, köld böð, léttar jógaæfingar, sjálfsþekkingarleiki, heilsufæði svo eitthvað sé nefnt. Gist verður tvær nætur í skála FFA á Glerárdal, Lamba þar sem aðstaða er góð.

1.d., föstudagur: Ganga dagsins er frá bílastæði við Súluveg að Lamba. Gengið eftir stígum og slóðum. Komum okkur fyrir í skálanum, borðum saman, hugleiðum og eigum notalega stund. Vegalengd: 11 km. Gönguhækkun: 400m.

2.d., laugardagur: Ganga dagsins er frá Lamba upp að Tröllunum sem eru sérkennileg berggöng austan Glerár í Tröllafjalli. Þá er gengið niður að vatninu Tröllaspegli þar sem verður áð og hugleitt ef veður leyfir. Vaða þarf yfir Glerána sem er auðvelt á þessum árstíma en gott að hafa vaðskó og göngustafi. Síðan er gengið til baka aftur í Lamba þar sem verður borðað saman ásamt smá kvöldvöku. Vegalengd: 12-14 km. Gönguhækkun: 450 m.

3.d., sunnudagur: Létt jóga fyrir þá sem vilja. Til byggða verður gengið niður Finnastaðadal og komið að Finnastöðum í Eyjafirði þar sem þarf að sækja göngufólk. Fararstjórar aðstoða við það ef þarf. Gert er ráð fyrir að koma til Akureyrar seinni part dags. Vegalengd: 11 km. Gönguhækkun: 270 m.

Verð: 25.000/28.000. Innifalið: Gisting í tvær nætur og fararstjórn. Sameiginlegur matur greiðist sérstaklega. Fararstjórar sjá um að kaupa inn og elda.
Hámarksfjöldi 12 manns.

17. ágúst: Gusthnjúkur á Höfðaströnd

 

  - 

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Una Þórey Sigurðardóttir
Gusthnjúkur í Skagafirði er á Höfðaströnd ofan við bæinn Vatn og státar af afar fallegu útsýni. Hann er 590 m hár. Af hnjúknum sést yfir perlur Skagafjarðar, Þórðarhöfða, Höfðavatn og Málmey. Þaðan sést einnig til Tindastóls og út á Skaga og ekki ólíklegt að Strandafjöllin sjáist í góðu skyggni. Leiðin á hnjúkinn er aflíðandi og gönguland ágætt, en efst er leiðin grýtt og brött.
Vegalengd alls 8-10 km. Gönguhækkun: 590 m.
Verð: 3.500/5.000. Innifalið: Fararstjórn.

 

18. ágúst: Siglufjarðarskarð: Rafhjólaferð

 



Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Jón M. Ragnarsson og Stefán Sigurðsson
Ekið til Siglufjarðar. Lagt af stað þaðan, hjólað inn Skarðsdal og upp gamla veginn upp í Siglufjarðarskarð. Þaðan er víðsýnt í góðu veðri allt vestur á Strandir. Síðan er hjólað niður í Fljótin og eftir þjóðveginum gegnum Strákagöng og til Siglufjarðar. Þeir sem eiga flutningsfestingu fyrir hjól nota hana, aðrir geta fengið hjólin flutt á hjólakerru.
Vegalengd: 33 km. Hækkun samtals um 1000 m.
Verð: 6.000/7.500. Innifalið: Fararstjórn og flutningur á hjólum á hjólakerru fyrir þá sem þurfa.  

22. ágúst: Barna- og fjölskylduferð: Fjöruferð í Veigastaðabás

 

Brottför kl. 17 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Hulda Jónsdóttir og Sunna Björk Ragnarsdóttir
Ekið framhjá Skógarböðunum í norðurátt að litlu plani vestan vegar. Gengið eftir stíg niður í fjöruna, þar sem margt skemmtilegt er að sjá og skoða. Munið að vera í stígvélum eða góðum skóm til fjörugöngu.
Þátttaka ókeypis.

24. ágúst: Dýjafjallshnjúkur 


Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Arnar Bragason
Gengið frá bænum Dagverðartungu í Hörgársveit sunnan Fornhagagils. Síðan fram með Úlfá og Tungudalsá inn í Ytri-Tungudal að Dyngjuhnjúk. Þar er farið norður yfir Tungudalsá og stefnt upp á Dýjafjallshnjúk. Sama leið farin til baka.
Ef útlit er fyrir að það þurfi sérstakan búnað eins og brodda þá lætur fararstjóri vita tímanlega.
Vegalengd alls 20 km. Gönguhækkun: 1365 m.
Verð: 5.000/6.500. Innifalið: Fararstjórn.

25. ágúst: Fossaferð í Bárðardal   

 

Brottför kl. 9 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Halldóra Skúladóttir
Ekið fram Bárðardal að austan, niður hjá Stórutungu, að bílastæði við Aldeyjarfoss þar sem bílum er lagt. Gengið upp gamlan árfarveg í stórbrotnu umhverfi. Farið framhjá sigkötlum og klettamyndum þar sem þarf smá lipurð og liðleika. Gengið áfram suður með Skjálfandafljóti að Ingvararfossum og gengið meðfram fljótinu að Aldeyjarfossi. Ef veður og tími leyfir er hægt að ganga/aka að Hrafnabjargafossum. Fremur auðveld og stutt ganga sem tekur um 2 klst. Óveruleg gönguhækkun.
Verð: 2.500/4.000. Innifalið: Fararstjórn.

September

1. september: Húsavík - Botnsvatn   

 

Brottför kl. 10 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Jóhanna Ásmundsdóttir
Ekið til Húsavíkur, bílum lagt við eystri enda íþróttavallarins. Gengið er eftir göngustíg sem liggur í fjallinu bláa, Húsavíkurfjalli. Gengið upp að Botnsvatni og hringinn í kringum vatnið eftir þægilegum göngustíg. Þaðan liggur leiðin niður með ánni og í gegnum Skrúðgarðinn. Mjög falleg leið. Gangan tekur 2 - 3 klst. Veitingastaðurinn Naustið tekur á móti hópnum kl. 16:00 þar sem við fáum að bragða á nýju tapasréttunum þeirra. Stefnum á að mæta í Sjóböðin kl. 18. Lagt af stað heim kl. 20. 
Vegalengd alls 11 km. Gönguhækkun: 310 m.
Munið eftir sundfötunum, þau sem ætla í Sjóböðin.

Verð: 3.500/5.000. Innifalið: Fararstjórn. Ekki innifalið: Matur og aðgangur að Sjóböðunum.

 

4. september: Barna- og fjölskylduferð: Hrossadalur; haustferð

 

Brottför kl. 17 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
 Fararstjórn: Hulda Jónsdóttir
 Ekið er upp á Víkurskarð og gengið þaðan að gamalli rétt í Hrossadal. Tilvalið að njóta fallegra haustlita og jafnvel að sulla í læk.
 Þátttaka ókeypis.

7. september: Tröllin á Glerárdal, gönguleið að vestan 


Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Ingimar Eydal.
Ekið er að bílastæði við veg að Glerárstíflu þaðan sem genginn er vegurinn inn að stíflu Glerárvirkjunar 2 og haldið inn vesturbakka Glerárinnar. Vaða þarf yfir Heimari-Lambá á hentugum stað á aurkeilunni og gengið áfram að Fremri-Lambá þar sem hægt er að fara yfir á brú. Gengið að vatninu Tröllaspegli og upp að Tröllunum sem eru 30 - 40 m háir bergstandar. Sama leið farin til baka að bílastæðinu. Göngulandið er gróið og eitthvað um mýrlendi.
Nauðsynlegt: Vaðskór, mjög gott að hafa göngustafi í þessu göngulandi og góðir gönguskór nauðsynlegir, helst vatnsheldir.
Vegalengd alls um 20 km. Gönguhækkun um 900 m.
Verð: 5.000/6.500. Innifalið: Fararstjórn.

8. september: Hálshnjúkur í Fnjóskadal

 

Brottför kl. 9 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Haukur F. Valtýsson.
Ekið í Vaglaskóg að Efri-Vöglum þar sem gangan hefst. Gengið er upp hlíðina eftir stikaðri leið og á Hálshnjúkinn með heimamanni. Af hnjúknum er frábært útsýni yfir Fnjóskadal og Ljósavatnsskarð. Sama leið farin til baka.
Vegalengd alls 4 km. Gönguhækkun um 400 m.
Verð: 2.500/4.000. Innifalið: Fararstjórn.

14. september: Kálfsvatn við Siglufjörð   

 

Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Margrét L. Laxdal
Ekið til Siglufjarðar. Gangan hefst við Ráeyri, gengið norður ströndina að vitanum við Selvík síðan upp Kálfsdal og að Kálfsvatni. Sama leið farin til baka.
Vegalengd alls 9 km. Gönguhækkun: 230 m.
Verð: 2.500/4.000 kr. Innifalið: Fararstjórn.

21. september: Gengið á slóðir setuliðsins á Melgerðismelum í Eyjafjarðarsveit 

Brottför kl. 13 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Brynjar Karl Óttarsson
Hópur áhugafólks um verndun stríðsminja í Eyjafirði hefur um nokkurt skeið rannsakað athafnasvæði setuliðsins í Eyjafirði. Ýmsir áhugaverðir gripir hafa litið dagsins ljós sem varpa ljósi á daglegt líf og störf hermanna á stríðsárunum. Nýlegar uppgötvanir á Melgerðismelum hafa fangað athygli fjölskyldu í Arkansas í Bandaríkjunum. John Kassos, bandarískur flugmaður sem dvaldist á Melunum sumarið 1942, fórst þegar orrustuvél hans af gerðinni P-39 Airacobra hrapaði í Rauðhúsahólum. Brynjar Karl Óttarsson mun ganga með áhugasömum á slóðir flugmannsins unga á Kassos Field. Braggagrunnar verða skoðaðir og staðurinn þar sem John brotlenti vél sinni með fyrrgreindum afleiðingum. Ef tími gefst til verður komið við á Hrafnagili þar sem setuliðið starfrækti herspítala.
Verð: 2.500/4.000. Innifalið: Fararstjórn og leiðsögn.

28. september: Krossastaðagil á Þelamörk; haustlitaferð

 

 

 

Brottför kl. 10 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Hulda Jónsdóttir
Gengið er upp með Krossastaðagili við Þelamörk í fallegu umhverfi gróðurs, flúða og fossa. Gengið að fjárréttinni sem þar er. Gengið á kindaslóðum eða utan slóða. Sama leið farin til baka. Falleg leið í haustlitunum. 
Vegalengd alls 8 km. Gönguhækkun: 300 m.
Þátttaka ókeypis. 

 Október og nóvember

 Boðið verður upp á „Góðviðrisgöngur“ með stuttum fyrirvara eftir því hvernig viðrar til léttra eða erfiðari gönguferða.