- Skrifstofan
- Félagið
- Ferðir og viðburðir
- Hreyfiverkefni
- Skálar
- Myndir
Ferðaáætlun Ferðafélags Akureyrar gildir fyrir eitt ár í senn. Allir eru velkomnir í ferðir félagsins hvort sem þeir eru félagar eða ekki. Börn og unglingar eru einnig velkomnir í fylgd með fullorðnum og þurfa foreldrar að meta hvort þeir treysta þeim í ferðirnar. Sérstakar barna- og fjölskylduferðir eru sjö talsins, frítt er í þær ferðir.
Greiðslufyrirkomulag ferða 2023
Ef afpanta þarf ferð skal senda póst á netfangið ffa@ffa.is, ekki er nóg að hringja vegna afpöntunar.
Ferðafélag Akureyrar áskilur sér rétt til að leiðrétta villur, hætta við ferð, fresta ferð eða breyta áætlun vegna veðurs eða annarra utanaðkomandi aðstæðna, svo og ef ekki fæst næg þátttaka. Ef félagið fellir niður ferð fæst staðfestingargjald eða ferð endurgreidd.
Áætlaður tími ferða er aðeins viðmið og fer eftir hópnum og aðstæðum hverju sinni. Farþegar ferðast með félaginu á eigin ábyrgð. Ferðafélag Akureyrar tryggir hvorki farþega sína né farangur þeirra og hvetur fólk til að kynna sér eigin heimilistryggingar eða kaupa ferða- og slysatryggingu.
Í ferðum Ferðafélags Akureyrar þar sem sameinast er í bíla taka allir þátt í kostnaði með því að greiða bílstjóra hvers bíls fyrir sig.
Þátttakendur í ferðum FFA eru minntir á að virða gildandi sóttvarnareglur á hverjum tíma, gæta hreinlætis, hafa handspritt meðferðis, virða fjarlægðarmörk og taka tillit til ferðafélaga.
Hér er ferðaáætlun FFA 2023 til útprentunar.
12. janúar kl. 20:00 að Strandgötu 23.
Skíðaferðir 2023 kynntar sérstaklega í máli og myndum. Fararstjórar mæta á svæðið, segja frá og bjóða upp á spjall. Auk þess verð skíðaverkefnin sem verða í boði í febrúar og mars kynnt.
2. febrúar kl. 20:00 að Strandgötu 23.
Sumarleyfisferðir 2023 kynntar sérstaklega í máli og myndum. Fararstjórar mæta á svæðið, segja frá og bjóða upp á spjall.
30. mars kl. 20:00 í VMA.
Þá verður ferðaáætlunin í heild sinni kynnt auk hreyfiverkefna sumarsins. Áhugaverður gestur mætir á svæðið.
Brottför kl. 13 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Grétar Grímsson.
Þátttaka ókeypis.
Brottför kl. 11 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Ingvar Teitsson
Ferðin hefst á bílastæðinu neðan við Kaupang og er gengið að Eyjafjarðará og síðan suður bakka árinnar að brúnni hjá Hrafnagili. Á leiðinni heyrum við sögur af fólki og dáumst að fögru útsýninu. Þægileg gönguleið á flötu landi. Selflytja þarf bíla milli upphafs- og endastaðar. Ferð fyrir alla.
Vegalengd 10 km.
Þátttaka ókeypis.
Brottför kl. 10 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Anke Maria Steinke.
Gangan hefst við Bug í Hörgárdal. Fremur létt og þægileg leið fram að eyðibýlinu Baugaseli en þar er lítið safn gamalla muna.
Gil og rústir skoðuð á leiðinni. Sama leið farin til baka.
Vegalengd alls 12-13 km. Gönguhækkun 80 m.
Verð: 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn.
Brottför kl. 9 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Frímann Guðmundsson
Gengið er frá Syðri-Reistará og niður undir sjó. Síðan norður til Hjalteyrar og skoðað hvaðan við fáum heita vatnið. Svo út Arnarnesnafir og aftur að Reistará um Bjarnarhól.
Vegalengd alls 12-13 km. Gönguhækkun lítil.
Verð: 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn.
Brottför kl. 9 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Frímann Guðmundsson
Gangan hefst við afleggjarann í Fálkafell og er haldið þaðan upp Sigurðargil og á Súlumýrar. Þar er frábært skíðagöngusvæði og má finna leiðir við allra hæfi.
Vegalengd alls 12-13 km. Gönguhækkun 300 m.
Verð: 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn.
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Kristján E. Hjartarson
Ekið að hliði innan við bæinn Þverá í Skíðadal og gengið þaðan inn að Sveinsstöðum með viðkomu í Stekkjarhúsum eða eftir því sem færð leyfir. Dalurinn er frábært skíðasvæði og mjög fallegur í vetrarbúningi.
Vegalengd alls 13-14 km. Gönguhækkun 200 m.
Verð: 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn.
Brottför kl. 9 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Fjóla Kristín Helgadóttir
Ekið að Stærri-Árskógi. Þaðan er gengið á gönguskíðum að skálanum Derri í vestanverðum Þorvaldsdal og til baka sömu leið.
Vegalengd alls 18-19 km. Gönguhækkun 150 m.
Verð: 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn.
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Ingvar Teitsson
Ekið að Fnjóskárbrú hjá Illugastöðum og gengið inn Fnjóskadal framhjá eyðibýlum að Sörlastöðum, en þangað er um 10 km ganga. Sama leið gengin til baka. Á leiðinni verða sagðar sögur af svæðinu og dáðst að stórfenglegu útsýninu í fremsta hluta Fnjóskadals.
Vegalengd alls 19-20 km. Gönguhækkun 90 m.
Verð: 3.000/4.500. Innifalið: Fararstjórn.
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Ingvar Teitsson
Ekið austur á Mývatnsheiði að afleggjaranum í Stöng þar sem bílarnir eru skildir eftir. Rúta sækir hópinn svo að Þverá og flytur að bílunum. Gengið austan Másvatns, upp á Ljótsstaðahall og síðan norður mýrina. Á leiðinni eru rifjaðar upp slysfarasögur við Hallgrímslág og Skollhóla. Ferðin endar við bæinn Þverá í Laxárdal. Mikið útsýni er af Laxárdalsheiðinni.
Vegalengd 17 km. Gönguhækkun 60 m.
Verð: 9.500/11.000. Innifalið: Fararstjórn og rúta.
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Kristján E. Hjartarson
Ekið til Dalvíkur að skíðaskálanum í Böggvisstaðafjalli. Þaðan er skíðað upp í Böggvisstaðadal og áfram inn dalinn, fram hjá Dalakofanum sem er áningarskáli og kúrir undir Grímubrekkum. Áfram er haldið í áfangastað sem er skálinn Mosi. Sama leið farin til baka.
Vegalengd alls 15 km. Gönguhækkun 650 m. Greiða þarf aðstöðugjald í Mosa.
Verð: 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn.
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Sigurgeir Sigurðsson.
Ekið að svæðinu við Þeistareykjaskálann þar sem gangan hefst. Þeistareykjabunga er ein stærsta dyngja landsins en upptök hennar eru í Stóra-Víti. Gengið verður upp í Bóndhólsskarð, að Litla-Víti sem er mjög sérstakt og áfram að Stóra-Víti. Síðan er gengið á hæsta punkt Þeistareykjabungu, þaðan sem víðáttumikil hraun hafa runnið og víðsýnt er um svæðið.
Vegalengd alls 15 km. Gönguhækkun 200 m.
Verð: 3.000/4.500. Innifalið: Fararstjórn.
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Bernard Gerritsma og Bóthildur Sveinsdóttir
Gangan hefst á bílastæðinu við Súluveg. Gengið er inn að Lamba, skála FFA á Glerárdal og sama leið farin til baka. Á leiðinni njóta þátttakendur dásemda fjallahringsins á útivistarsvæði Akureyringa.
Vegalengd alls 22 km. Gönguhækkun 440 m.
Þátttaka ókeypis.
Brottför kl. 13 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Aðalsteinn Árnason
Um er að ræða þriggja daga vetrarferð sem krefst viðeigandi vetrarbúnaðar. Gist verður í skálunum Berglandi og Laugafelli.
1. d., föstudagur: Hólsgerði - Bergland
Ekið að Hólsgerði og skíðin spennt á gönguhópinn.
Vegalengd 15 km. Hækkun 840 m.
2. d., laugardagur: Bergland - Laugafell
Vegalengd um 20 km. Gönguhækkun óveruleg.
Ef veður er gott þá verður gengið um Sesseljubæ í Geldingsárdrögum á leiðinni í Laugafell.
Laugin í Laugafelli bíður ylvolg eftir lúnum göngumönnum
3. d., sunnudagur: Laugafell - Hólsgerði
Vegalengd 35 km, töluvert undan fæti í lok dags.
Stefnt á að vera komin að fremsta bæ í Eyjafirði fyrir myrkur.
Um vetrarferð er að ræða og þurfa þátttakendur að vera útbúnir samkvæmt því. Nauðsynlegur búnaður eru utanbrautarskíði með stálköntum, hlýr fatnaður, hlýir skór, bakpoki eða púlka.
Verð: 10.000/13.500. Innifalið: Fararstjórn og gisting í tvær nætur.
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Marjolijn van Dijk
Kaldbakur er ein af perlum Eyjafjarðar með útsýni allt austur á Langanes og inn á hálendi Íslands. Fjallið er talið vera ein af orkustöðvum Íslands og ferð upp á fjallið er ógleymanleg lífsreynsla. Þar er stór landmælingavarða hlaðin af dönskum landmælingamönnum 1914.
Vegalengd alls 12-13 km. Gönguhækkun 1140 m.
Verð: 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn.
Brottför kl. 10 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Þuríður H. Kristjánsdóttir
Ekið er að sumarhúsinu Seli þaðan sem lagt er af stað í gönguna. Gengið eftir stikaðri leið upp brekkurnar að vörðunni sem er á Haus en hann er fyrsti áfanginn á leiðinni á Uppsalahnjúk. Mikið og fagurt útsýni er af Haus. Stutt ganga.
Vegalengd 3,3 km. Gönguhækkun 270 m.
Þátttaka ókeypis.
Brottför kl. 8 með rútu frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Ingibjörg Elín Jónasdóttir
Ekið að vesturósi Héraðsvatna og gengið þaðan til Sauðárkróks þar sem elsti bæjarhlutinn verður skoðaður. Því næst er gengið upp á Nafirnar og eftir þeim að Sauðárgili. Farið verður niður í gilið og gengið í gegnum Litla-Skóg. Fólk fær tíma til að skoða sig um á Króknum og fá sér að borða og gera annað sem það hefur áhuga á. Því næst er ekið út Reykjaströnd að Reykjum. Þátttakendur geta valið um að ganga með fararstjóra um Reykjadisk eða fara í Grettislaug. Sundföt eru nauðsynleg ef fólk vill fara í laugina, aðgangseyrir í laugina er 2.000 kr.
Verð: 18.000/20.000. Innifalið: Fararstjórn og rúta.
Brottför kl. 17 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Jón Magnússon og Sverrir Thorstensen
Fuglaskoðunarferð barnanna hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár en í henni gefst börnum tækifæri til að kíkja á og fræðast um hinar ýmsu fuglategundir undir skemmtilegri leiðsögn Jóns og Sverris sem eru miklir áhugamenn um fugla. Gott er að taka með sér sjónauka og skriffæri því það getur verið gaman að skrá niður þær fuglategundir sem maður sér.
Þátttaka ókeypis.
20. maí: Fuglaskoðunarferð um Eyjafjörð
Brottför kl. 9 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Jón Magnússon og Sverrir Thorstensen
Árleg fuglaskoðunarferð FFA undir leiðsögn kunnáttumanna, nú sem oftar um Eyjafjörðinn þar sem reynt verður að slá fyrri met í tegundafjölda fundinna fugla. Þátttakendur fylgja fararstjórum á valda staði þar sem fuglalífið verður skoðað. Stefnt er að því að finna álftahreiður, skeiðönd, grafönd, flórgoða jafnvel gargönd og margar fleiri tegundir.
Verð: 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn.
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Viðar Örn Sigmarsson
Gengið frá Skíðastöðum og upp Mannshrygg á Hlíðarfjall. Síðan er gengið inn eftir fjallinu og upp á Strýtu þar sem útsýni er mikið. Sama leið gengin til baka. Nauðsynlegt er að hafa jöklabrodda meðferðis.
Vegalengd alls 14 km. Gönguhækkun um 900 m.
Verð: 3.000/4.500. Innifalið: Fararstjórn.
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Hulda Jónsdóttir
Gangan hefst hjá Hrauni í Öxnadal. Gengin er stikuð leið frá bænum upp grasi gróna brekku og móa. Við tekur ævintýralegt landslag undir Drangafjalli en lægðin þar nefnist Drangabollar. Gengið er suður að Hraunsvatni og farið meðfram Hraunsá til baka í gegnum hraunið og aftur að Hrauni.
Vegalengd alls 8-9 km. Gönguhækkun 400 m.
Þátttaka ókeypis.
Brottför kl. 17 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Fjóla Kristín Helgadóttir
Gengið er frá bílastæðinu við Sólúrið í Kjarnaskógi og þaðan upp að Gamla, skála skáta á Akureyri. Svipuð leið verður gengin til baka. Gangan upp eftir er nokkuð á fótinn en gengið verður rólega svo allir njóti sem best.
Vegalengd alls 3-4 km. Gönguhækkun 190 m.
Þátttaka ókeypis.
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Margrét Kristín Jónsdóttir
Ekið til Húsavíkur, siglt þaðan með Norðursiglingu út í Flatey. Siglingin og tekur um tvær klukkustundir. Náttúra og mannvirki eyjunnar skoðuð undir leiðsögn. Boðið verður upp á kaffi/kakó/te í Bjarmaskúr í lok göngu. Áætlaður tími í eyjunni um 2-3 klst. Siglt til baka til Húsavíkur seinnipartinn. Stoppað við Gatanöf á heimleiðinni fyrir þá sem vilja.
Verð: 20.000/22.000. Innifalið: Fararstjórn, leiðsögn, sigling og kaffi/kakó/te.
Brottför kl. 19 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Hulda Jónsdóttir
Ekið fram Eyjafjörð að austanverðu að Öngulsstöðum. Þaðan er ekið eftir malarvegi að bílastæði við sumarbústaðinn Sel. Gengið er eftir stikaðri leið að vörðunni á Haus sem er fyrsti áfanginn þegar gengið er á Staðarbyggðarfjall. Þaðan er frábært útsýni og gaman að njóta með börnum á fallegu sumarkvöldi.
Vegalengd 3,3 km. Gönguhækkun 270 m.
Þátttaka ókeypis.
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Brynhildur Bjarnadóttir
Ekið að Hrauni í Öxnadal þar sem gangan hefst. Gengið verður á Halllok í Öxnadal (998 m) þaðan er stórkostlegt útsýni til suðurs að Hraundranga. Á bakaleiðinni liggur leiðin um Einbúaskál og Draugadal að Hraunsvatni og áfram til baka niður að bænum Hrauni. Farið verður rólega yfir og áherslan verður á að njóta og skoða náttúru þessa stórbrotna svæðis. Á leiðinni horfum við í kringum okkur eftir blómum og ræðum náttúrufar svæðisins, auk þess sem andi Jónasar Hallgrímssonar mun svífa yfir vötnum.
Vegalengd 13-14 km. Gönguhækkun 850 m.
Verð: 3.000/4.500. Innifalið: Fararstjórn.
Brottför kl. 19 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Ingileif Ástvaldsdóttir.
Ekið upp á hólabrúnina í mynni Villingadals og gengið þaðan eftir vegi og stígum um hólana. Þátttakendur nota skilningarvitin til að dýpka upplifun sína af náttúrunni. Gangan fer að mestu fram í kyrrð þar sem tækifæri er veitt til að rækta sál og líkama í fallegri náttúru Eyjafjarðar með því að staldra við á göngunni til að gera nokkrar jógastöður undir berum himni. Létt ganga og ferð við flestra hæfi.
Þátttaka ókeypis.
Brottför kl. 21 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Roar Kvam
Ekið til Grenivíkur þar sem gangan hefst, gengið eftir götuslóða upp á höfðann. Af höfðanum er fallegt útsýni og tilvalið að njóta kvöldsólarinnar á þessum fallega stað. Tilvalin fjölskylduferð.
Vegalengd 4 km. Gönguhækkun 260 m.
Þátttaka ókeypis.
Brottför kl. 19 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Björn Vigfússon sögumaður og Þorgerður Sigurðardóttir.
Gásir við Eyjafjörð var verslunarstaður á miðöldum og má þar sjá friðlýstar fornleifar. Gengið um svæðið, rýnt í söguna og ummerki fornrar byggðar skoðuð. Síðan verður gengið að Skipalóni en sá staður kemur við sögu í bókum Jóns Sveinssonar, Nonni og Manni. Þægileg ganga en þó um gróið land, fjöru, tún og móa. Gott að vera í góðum skóm og með göngustafi.
Vegalengd 7-8 km. Gönguhækkun óveruleg. Selflytja þarf bíla á milli staða, en það er örstutt.
Verð: 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn.
Brottför kl. 19 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Roar Kvam
Gengið er á fjallið frá bílastæðinu á Víkurskarði eftir stikaðri leið í Gæsadalinn og stefnt á Kræðufell. Af fjallinu er mjög gott útsýni yfir til byggðarinnar vestan fjarðarins og til Hríseyjar.
Vegalengd alls 10-11 km. Gönguhækkun 400 m.
Verð: 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn.
Brottför kl. 20 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Bernard Gerritsma og Bóthildur Sveinsdóttir
Gengið upp á Múlakollu frá gamla Múlaveginum, upp dalinn norðan Brimnesár. Geysimikið útsýni er til allra átta af hátindi kollunnar.
Vegalengd 8 km. Gönguhækkun 930 m.
Verð: 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn.
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Herdís Zophoníasdóttir
Ekið í Skagafjörð að uppgöngunni í Mælifellsdal. Gengið eftir merktri slóð á fjallið, þaðan sem útsýnið er stórfenglegt til allra átta. Sama leið gengin til baka.
Vegalengd alls 7-8 km. Gönguhækkun 670 m.
Verð: 3.000/4.500. Innifalið: Fararstjórn.
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Börn Bjarna E. Guðleifssonar leiða gönguna.
Í ár eru liðin 30 ár síðan Bjarni E. Guðleifsson stóð fyrir fyrsta Þorvaldsdalsskokkinu. Í tilefni af því býður FFA upp á gönguferð í gegnum dalinn sama dag og hlaupið fer fram. Ekið er að Stærra-Árskógskirkju þar sem bílar eru skildir eftir og rúta ekur þátttakendum að Fornhaga í Hörgárdal þar sem er gangan hefst. Gengið í gegnum dalinn og að Stærra-Árskógskirkju þar sem bílarnir eru. Leiðin í gegnum dalinn er löng og falleg, gengið er yfir tvö stórgrýtt berghlaup, Hestahraun og Hrafnagilshraun. Á leiðinni munu hlauparar dagsins eflaust fara fram úr hópnum og gefst þá tilefni til hvatningar.
Vegalengd 23-25 km. Gönguhækkun 500 m.
Verð: 7.000/9.000. Innifalið: Fararstjórn og rúta.
Brottför kl. 10 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Herdís Zophoníasdóttir
Gengið er frá tjaldsvæðinu á Hömrum upp að skátaskálanum Gamla. Þaðan er haldið áfram eftir stikaðri leið að Steinmönnum. Frá þessum skemmtilegu steinkörlum er stórkostlegt útsýni til allra átta. Sama leið er gengin til baka.
Vegalengd alls 7-8 km. Gönguhækkun 400 m.
Þátttaka ókeypis.
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Kristján E. Hjartarson
Lagt af stað frá Dalvíkurkirkju og gengið upp Böggvisstaðadal/Upsadal. Síðan er gengið upp Grímudal og Grímubrekkur þar til komið er í skarðið norðan við Einstakafjall. Þaðan er svo haldið niður í Kálfsárdal og dalurinn genginn að bænum Kálfsá í Ólafsfirði þar sem rúta bíður. Rútan ekur þátttakendum að Dalvíkurkirkju þar sem bílarnir bíða.
Vegalengd 14-15 km. Gönguhækkun um 910 m.
Verð: 7.000/9.000. Innifalið: Fararstjórn og rúta.
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Stefán Sigurðsson
Ekið fram í Timburvalladal með hjól. Ferðin hefst við Bakkasel í Timburvalladal. Hjólað yfir brú á Bakkaá og stefnan tekin á gangnamannaskálann Staupastein í Hjaltadal. Hjaltadalur er vel gróinn og umhverfið mjög fallegt. Þetta er ferð sem hentar þeim sem eru að byrja á rafmögnuðum fjallahjólum. Þeir sem eiga festingu fyrir hjól nota hana, aðrir geta fengið hjólin flutt á hjólakerru.
Verð: 5.000/6.500. Innifalið: Fararstjórn og flutningur á hjólum á hjólakerru fyrir þá sem þurfa.
Brottför kl. 10 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Ásrún Jónsdóttir
Ferðin er á fimmtudegi og föstudegi.
Lagt af stað frá bílastæðinu við Stærri-Árskóg og gengið þaðan fram Þorvaldsdal í skálann Derri þar sem gist verður eina nótt. Ef einhverjir vilja heldur taka með sér tjald þá er líka hægt að gista í tjöldum við skálann.
Vegalengd alls 18 km (9 km hvorn dag). Gönguhækkun lítil nema rétt í upphafi.
Verð: Fullorðnir 9.500/13.000, frítt fyrir börn. Innifalið: Fararstjórn og gisting í eina nótt fyrir einn fullorðinn og börn.
Brottför kl. 13 á einkabílum (jeppum eða jepplingum) frá FFA, Strandgötu 23. Safnast verður saman í bíla, 4-5 í hvern bíl.
Fararstjórn: Ásdís Skúladóttir og Birna Guðrún Baldursdóttir
Fjörður er einstakur staður þar sem kyrrðin, fjöllin og litadýrðin umlykja okkur. Þangað er ferðinni heitið í skemmtilega og nærandi gönguferð sem felur í sér verkefni til sjálfsræktar, hugleiðslu, sjóböð, léttar jógaæfingar, sjálfsþekkingarleiki og heilsufæði svo eitthvað sé nefnt. Gist verður tvær nætur í skála á Þönglabakka í Þorgeirsfirði þar sem er góð aðstaða.
1. d., föstudagur: Ekið sem leið liggur í Fjörður. Ganga dagsins er frá Hvalvatnsfirði yfir í Þorgeirsfjörð. Vegalengd 5 km. Gönguhækkun 100 m. Stutt kvöldganga og hugleiðsla.
2. d., laugardagur: Eftir morgunverð er gengið yfir í Keflavík þar sem dvalið verður um stund við létt jóga og slökun. Gengið til baka. Þetta er lengsti dagurinn.
Vegalengd fram og til baka 14 km. Hæsti punktur er ca 400 m en uppsöfnuð gönguhækkun á leiðinni er um 900 m.
3. d., sunnudagur: Létt jóga og sjóbað fyrir þá sem vilja. Gengið til baka um hádegi. Gert ráð fyrir að koma til Akureyrar um kl. 15:30.
Vegalengd 5 km. Gönguhækkun 100 m.
Verð: 23.000/26.000. Innifalið: Fararstjórn og gisting í tvær nætur. Hámarksfjöldi 14 manns.
Sameiginlegur matur sem greiðist sérstaklega. Fararstjórar sjá um að kaupa inn og elda.
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Bernard Gerritsma og Bóthildur Sveinsdóttir
Ekið á einkabílum að bílastæðinu við Súluveg þar sem bílarnir eru skildir eftir. Þar bíður rúta sem ekur þátttakendum að Finnastöðum þaðan sem gengið er á Kerlingu 1538 m, hæsta fjall í byggð á Íslandi. Síðan er gengið norður eftir tindunum; Hverfanda 1320 m, Þríklökkum 1360 m, Bónda 1350 m, Litla Krumma, Stóra Krumma, Syðri-Súlu 1213 m, Ytri-Súlu 1143 m og niður í Glerárdal þar sem bílar þátttakenda bíða.
Þetta er krefjandi ganga enda merkt fjögurra skóa ferð. Þátttakendur þurfa að vera í góðu gönguformi. Gangan getur tekið 12 klst. en það fer allt eftir hópnum, færð og veðri. Þátttakendur þurfa að klæða sig eftir veðri og taka með sér gott og orkuríkt nesti til dagsins og nóg af vatni þar sem ekki er víst að vatn sé að finna á leiðinni. Gott að hafa brodda meðferðis.
Vegalengd 20-21 km. Gönguhækkun alls 1800 m.
Verð: 8.000/9.500. Innifalið: Fararstjórn og rúta.
Brottför kl. 8 úr Mývatnssveit.
Fararstjórn: Marjolijn van Dijk
Farið úr Mývatnssveit annað hvort á einkabílum eða með rútu. Gist er í Bræðrafelli og Dreka. Bera þarf allan farangur og því mikilvægt að huga að því sem tekið er með. Svæðið sem farið er um státar af fallegum hraunmyndunum, auðn, litadýrð og ekki síst kyrrð. Nálægðin við Herðubreið hefur líka sín áhrif.
1.d., sunnudagur: Ekið í Herðubreiðarlindir. Eftir kaffi er gengið um greiðfært hraun í Bræðrafell og gist. Vegalengd 19 km.
2.d., mánudagur: Gengið á Kollóttudyngju og Bræðrafell skoðað. Gist í Bræðrafellsskála. Vegalengd 8-12 km.
3.d., þriðjudagur: Gengið frá Bræðrafelli í Drekagil. Gist í Dreka.
Vegalengd 21-22 km.
4. d., miðvikudagur: Gengið frá Dreka yfir Dyngjufjöll að Öskju. Ekið heim um kvöldið.
Vegalengd 10-11 km. Gönguhækkun er óveruleg.
Verð: 37.000/42.000. Innifalið: Fararstjórn og gisting í 3 nætur. Ekki innifalið: Ferðir, matur.
Brottför kl. 8 með rútu frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Sigurgeir Sigurðsson.
Ekið að bænum Syðri-Tungu á Tjörnesi og gengið þaðan um Skarðsbrekku og Tunguheiði að Fjöllum í Kelduhverfi, en heiðin er gömul þjóðleið. Tunguheiði er brött að austan en aflíðandi niður Tjörnesið. Uppi á henni er Biskupsás (532 m) þaðan sem útsýni er gott á góðum degi.
Vegalengd alls 15-16 km. Gönguhækkun 400 m.
Verð: 14.500/16.500. Innifalið: Fararstjórn og rúta.
Brottför kl. 13 með rútu frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Guðlaug Ringsted
Í ferðinni er gengið með lágmarksbúnað. Trússbíll ekur með farangur á milli skála. Bíllinn fylgir hópnum allan tímann. Rúta sækir svo hópinn í lok ferðar. Gist í skálum FFA, Dreka, Dyngjufelli og Botna.
1.d., sunnudagur: Ekið í Dreka, með viðkomu í Herðubreiðarlindum.
2.d., mánudagur: Gengið eftir stikaðri leið frá Drekagili, yfir Dyngjufjöll að Öskju, farið í sund í Víti ef vill. Hópurinn verður sóttur á bílastæðið við Öskjuop og ekið til baka að Dreka, gist þar aðra nótt. Vegalengd 13-14 km.
3.d., þriðjudagur: Ekið upp í Öskjuop. Gengið eftir stikaðri leið þaðan, yfir Dyngjufjöll um Jónsskarð og niður í Dyngjufjalladal. Gist í Dyngjufelli, skála FFA. Vegalengd 14 km.
4.d., miðvikudagur: Frá Dyngjufelli er gengið norður Dyngjufjalladal í Suðurárbotna. Gist í Botna, skála FFA. Vegalengd 20-22 km.
5.d., fimmtudagur: Lokadagur; gömlum jeppaslóða er fylgt frá Botna í Suðurárbotna og meðfram Suðurá að Svartárkoti. Vegalengd 15-16 km. Ekið með rútu til Akureyrar. Gert ráð fyrir að koma þangað um kl. 17.
Verð: 88.000/93.000. Innifalið: Fararstjórn, gisting í fjórar nætur, rúta og trússbíll með bílstjóra.
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Margrét L. Laxdal
Ekið að Dalvíkurkirkju þar sem gangan hefst. Genginn er malarvegur sem liggur til fjalls, upp með fallegu gljúfri og áfram í mynni Tungudals. Síðan er gengið upp á fjallið að vörðu sem þar stendur. Þarna er frábært útsýni yfir Dalvík, inn Svarfaðardal og Skíðadal, inn Eyjafjörð, út yfir Hrísey og allt til Grímseyjar. Stutt ganga sem er brött á köflum. Sama leið gengin til baka.
Vegalengd 7-8 km. Gönguhækkun 660 m.
Verð: 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn.
Brottför kl. 17 á einkabílum (jeppum) frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Leo Broers og Marjolijn van Dijk
Árleg ferð FFA á þjóðarfjallið Herðubreið (1682 m). Gist í Dreka, í skála FFA eða í tjaldi. Nauðsynlegt að vera á jeppa. Hjálmur er nauðsynlegur öryggisbúnaður.
1.d., föstudagur: Lagt af stað frá Akureyri kl. 17. Ekið í Dreka.
2.d., laugardagur: Gengið á Herðubreið.
3.d., sunnudagur: Haldið heim. Gert ráð fyrir að koma til Akureyrar seinnipart dags.
Gönguhækkun 1000 m.
Verð: Í skála 16.000/21.000. Í tjaldi 10.000/13.000. Innifalið: Fararstjórn og gisting í tvær nætur.
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Ingvar Teitsson
Ekið að bænum Hafrafellstungu í Öxarfirði og gengið þaðan upp á Hafrafell (535 m). Geysimikið og fagurt útsýni er af fjallinu. Síðan er gengið til baka, ekið frá Hafrafellstungu að Sandfellshaga og áleiðis upp á Öxarfjarðarheiði, þaðan sem gengið er upp á Þverárhyrnu (540 m). Svolítið brölt síðasta spölinn upp á tindinn en þaðan er geysifallegt útsýni í allar áttir. Sama leið gengin til baka og ekið heimleiðis.
Vegalengd alls 8-10 km. Gönguhækkun 700-800 m.
Verð: 3.000/4.500. Innifalið: Fararstjórn.
Brottför kl. 9 með rútu frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Bragi Guðmundsson
Áhugaverð hringleið um Tröllaskaga undir samfelldri leiðsögn fararstjóra. Byrjað er á því að fara frá Akureyri um „Skottið“ til Siglufjarðar með viðkomu í Héðinsfirði. Á Siglufirði verður ein menningarstofnun skoðuð og síðan liggur leiðin til Haganesvíkur sem á sér mikla sögu. Þar fær hópurinn sér göngu áður en haldið er til Hofsóss í hádegisverð. Frá Hofsósi er farið heim að Hólum og áð þar stutta stund. Þaðan er farinn hringur um Hegranes að minnisvarða um Jón Ósmann við vesturós Héraðsvatna til Sauðárkróks og síðan sem leið liggur til Akureyrar.
Verð: 18.000/20.000. Innifalið: Fararstjórn og rúta.
Brottför kl. 12 frá bílastæði við uppgöngu á Súlur.
Fararstjórn: Jónína Sveinbjörnsdóttir.
Lagt er af stað frá bílastæðinu við uppgönguna á Súlur og gengið fram Glerárdal í skálann Lamba þar sem gist verður eina nótt. Ferðin býður upp á fjölbreytta upplifun úti í náttúrunni m.a. þarf að stikla yfir læki á leiðinni. Lambi er vel útbúinn fjallaskáli með olíukyndingu og gashellu en sækja verður drykkjarvatn í lækinn. Þegar komið er fram í ágúst er farið að dimma á kvöldin og gaman að upplifa myrkrið í fjallakyrrðinni.
Vegalengd alls 22 km (11 km hvorn dag). Gönguhækkun 440 m.
Verð: Fullorðnir 9.500/13.000, frítt fyrir börn. Innifalið: Fararstjórn og gisting í eina nótt fyrir einn fullorðinn og börn.
Brottför kl. 17 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Fjóla Kristín Helgadóttir
Ekið að Miðvík beint niður af Víkurskarði. Gengið þaðan niður í fjöru og að tignarlegum fossi, Miðvíkurfossi sem fellur hér fram af niður í fjöru. Nokkuð bratt er þarna niður og svolítið klöngur, en stutt. Fjaran er áhugaverð fyrir börn en mjög grýtt og því nauðsynlegt að vera í góðum skóm. Miðvíkurfoss er falin perla, afar fallegur. Á leiðinni til baka verður efri fossinn skoðaður sem er ekki síður tignarlegur.
Þátttaka ókeypis.
Brottför kl. 8 með rútu frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Kristján E. Hjartarson
Rúta flytur göngufólk að Stekkjarhúsum í Skíðadal þar sem gangan hefst og sækir það síðan að Barká í Barkárdal þar sem göngunni lýkur. Gengið er að Skíðadalsá þar sem göngufólk er ferjað yfir ána. Stefnan er tekin beint upp í Heiðinnamannadal og áfram inn dalinn uns komið er á jökulfönn og gengið upp í Lambárskarð með fjallið Heiðingja á hægri hönd. Úr skarðinu er gengin jökulfönn með Hafrárhnjúk á hægri hönd niður Lambárdal að vegi við Barká þar sem rútan bíður.
Vegalengd 19-20 km. Gönguhækkun um 1060 m.
Verð: 13.000/15.000. Innifalið: Fararstjórn og rúta.
Brottför kl. 9 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Björn Z. Ásgrímsson
Gangan hefst við útsýnissvæðið í Héðinsfirði, gengið út með Héðinsfjarðarvatni að austanverðu með viðkomu að tóftum Vatnsenda. Næst verður haldið til Víkur og áð við slysavarnarskýlið. Því næst gengið niður á Víkursand og ósinn vaðinn. Litið verður á mannvistarleifar vestan óss og síðan haldið inn með vatninu vestanverðu að tóftum Ámár. Þar verður áð áður en vaðið er yfir Héðinsfjarðará og að lokum gengið út eftir að austanverðu og staldrað við hjá tóftum eyðibýlanna Möðruvalla og Grundarkots.
Vegalengd 16 km. Gönguhækkun óveruleg. Vaða þarf tvær ár. Gott að hafa vaðskó.
Verð: 3.000/4.500. Innifalið: Fararstjórn.
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Stefán Sigurðsson
Ekið að Nípá í Út-Kinn með hjól á kerrum. Síðan er lagt upp frá Nípá, hjólað upp grófan jeppaslóða og bak við fjallið Bakranga. Leiðin liggur síðan að Purkánni, farið yfir hana á brú og endað talsvert fyrir ofan Náttfaravíkur. Mikið útsýni til austurs og suðurs. Á þessari leið eru sprænur sem hjóla/vaða þarf yfir. Þetta er ferð fyrir þá sem eru komnir með talsverða reynslu af rafmagnsfjallahjólum. Þar sem hækkun er talsverð í báða enda þarf að huga að rafmagnseyðslu. Þeir sem eiga festingu fyrir hjól nota hana, aðrir geta fengið hjólin flutt á hjólakerru.
Vegalengd alls 37 km. Hækkun um 1000 m.
Verð: 5.000/6.500. Innifalið: Fararstjórn og flutningur á hjólum á hjólakerru fyrir þá sem þurfa.
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Ingvar Teitsson
Ekið að Fljótsbakka í Þingeyjarsveit og gengið þaðan austan Skjálfandafljóts um Svarthamarsskóg og eyðibýlin Glaumbæjarsel og Fosssel. Hér er mjög áhugaverð saga við hvert fótmál og gróðursælt umhverfi, ekki síst í Fossselsskógi. Síðan er gengið vestur með Skuldaþingseyjarkvísl þar sem Ullarfoss steypist niður í Skipapoll. Að lokum er gengið að Vaði í Þingeyjarsveit þar sem bílarnir bíða. Selflytja þarf bíla milli Vaðs og Fljótsbakka.
Vegalengd 12 km. Gönguhækkun um 50 m.
Verð: 3.000/4.500. Innifalið: Fararstjórn.
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Þuríður Helga Kristjánsdóttir
Ekið um göngin til Siglufjarðar. Gangan hefst við Ráeyri og gengið norður ströndina að vitanum við Selvík. Síðan upp Kálfsdal og að Kálfsvatni. Sama leið gengin til baka.
Vegalengd alls 9 km. Gönguhækkun 230 m.
Verð: 3.000/4.500. Innifalið: Fararstjórn.
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Frímann Guðmundsson
Ekið í Svartárkot. Gengið í Botna, skála FFA í Suðurárbotnum, gist þar og farið til baka næsta dag. Ferðast verður um heillandi víðáttu hálendisins þar sem haustlitirnir skarta sínu fegursta á þessum árstíma og aldrei að vita nema norðurljósin láti sjá sig.
Vegalengd 15-16 km hvor leið. Gönguhækkun lítil.
Verð: 10.000/12.000. Innifalið: Fararstjórn og gisting í eina nótt.
Brottför kl. 8 á einkabílum (jeppum eða jepplingum) frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Stefán Sigurðsson
Ekið er að Þverá í Dalsmynni og farinn Flateyjardalsvegur niður Almannakamb. Þaðan er svo hjólað norður að sjávarkambi neðan Brettingsstaða en kamburinn er ófær öllum farartækjum nema fjórhjóladrifnum bílum. Á leiðinni til sjávar er hjólaður jeppaslóði sem sums staðar er talsvert grýttur. Hjóla þarf yfir tólf lítil vatnsföll, læki og smásprænur.
Vegalengd alls 42 km. Óveruleg hækkun er á þessari leið. Þeir sem eiga festingu fyrir hjól nota hana, aðrir geta fengið hjólin flutt á hjólakerru.
Verð: 5.000/6.500. Innifalið: Fararstjórn og flutningur á hjólum á hjólakerru fyrir þá sem þurfa.
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23. Brottför frá Kröflustöð kl. 9:30.
Fararstjórn: Þóroddur Þóroddsson
Ekið að Kröfluvirkjun, gengið að Hrafntinnuhrygg og þaðan upp á Kröflu (827 m) sem er frábær útsýnisstaður. Síðan liggur leiðin niður að Víti og á Þríhnúka þar sem sér vel til Leirhnjúks, gengið þaðan yfir hraun og misgengi og að Kröflustöð. Gengið eftir slóðum og mólendi, yfirleitt er leiðin greiðfær, þó gæti verið nokkur leir á hluta hennar.
Vegalengd alls 10-11 km. Gönguhækkun 500 m.
Verð: 3.000/4.500. Innifalið: Fararstjórn.
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Roar Kvam
Ekið upp í Víkurskarð. Gengið verður fram Hrossadal suður af skarðinu og m.a. skoðaðar leifar af gamalli rétt. Síðan er haldið áfram að Þórisstaðaskarði og Lækjardal að upptökum Hamragils og aftur að Víkurskarði.
Vegalengd alls 14 km. Gönguhækkun um 200 m.
Verð: 2.000/3.500 kr. Innifalið: Fararstjórn.
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Jóhannes Kárason.
Ekið til Ólafsfjarðar og áleiðis upp á Lágheiði. Fjallið rís upp af Lágheiði í vesturátt. Tvær súlur þess bera við himin séð frá Ólafsfirði. Leiðin er ágætlega gróin og greiðfær. Þegar á toppinn er komið opnast útsýni yfir austurfjöllin og Reykjaheiði, Klaufabrekkudal og allan Ólafsfjörð. Einnig sést til bæjanna í Fljótum og að Stífluvatni og Haganesvík. Þá svíkur ekki stórbrotin fjallasýn til allra átta.
Vegalengd alls 6-8 km. Gönguhækkun 850 m.
Verð: 3.000/4.500. Innifalið: Fararstjórn.
Brottför kl. 9 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Ingvar Teitsson
Á þessum árstíma skartar Glerárdalur oft fallegum haustlitum. Bílum er lagt á Súlubílastæðinu þar sem gangan hefst. Gengið vestur yfir Glerá á göngubrú milli Hlífánna, að Glerárstíflu og hún skoðuð. Farið yfir brúna á stíflunni, upp á Lambagötuna og gengið að gömlu göngubrúnni á Gleránni og að bílunum. Þetta er skemmtileg hringleið í fallegum dal þar sem gengið er eftir stígum.
Vegalengd 6 km. Gönguhækkun 120 m.
Þátttaka ókeypis.
Brottför kl. 13 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Brynjar Karl Óttarsson
Hópur áhugasamra einstaklinga um verndun stríðsminja í Eyjafirði hefur rannsakað Melgerðismela um nokkurt skeið. Við rannsóknir á braggagrunnum á Melunum hefur ýmislegt forvitnilegt litið dagsins ljós. Nýjasta uppgötvunin á Melunum eða Kassos field eins og amerískir setuliðsmenn kölluðu svæðið eru gripir sem tilheyrðu ungum flugmanni sem dvaldist á Melgerðismelum sumarið 1942 og orrustuvél hans. Sumarið 2022 voru 80 ár liðin frá því að Kassos fórst með vélinni á Melgerðismelum.
Brynjar Karl Óttarsson mun ganga með áhugasömum á slóðir John Kassos og allra hinna setuliðsmannanna á Melgerðismelum. Braggagrunnar verða skoðaðir og staðurinn þar sem John brotlenti vél sinni með fyrrgreindum afleiðingum.
Verð: 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn og leiðsögn.