Fararstjórar

Til baka

Ósk Helgadóttir

Fararstjóri

Ósk er fædd og uppalin á Borgarfirði eystri. Hún hefur alla tíð verið náttúrubarn og er þess fullviss að það hafi mótað tilfinningar hennar til náttúrunnar að alast upp í svo stórbrotnu umhverfi, þar sem leikvöllur bernskunnar spannaði allt svæðið á milli fjalls og fjöru. Ósk hefur alltaf haft gaman af sögu lands og þjóðar. Snemma drakk hún í sig sögur forfeðranna af alls kyns álagablettum, huldugripum og yfirnáttúrulegum atburðum sem tengdust álfum og huldufólki og telur að þess konar sögur hafi haft það hlutverk að minna okkur mannfólkið á að gefa náttúrunni sitt pláss og bera fyrir henni virðingu. Eða eins og meistari Kjarval orðaði svo vel: „Við tökum ofan fyrir fuglum og blómum“.

Ósk flutti að heiman 16 ára gömul og hefur unnið margvísleg störf í gegnum árin. Hún hefur búið í Fnjóskadal í tæpa fjóra áratugi og starfað mörg síðustu ár í Stóru-tjarnaskóla.

Útivist af ýmsu tagi hefur lengi verið áhugamál Óskar, en eftir því sem árin hafa liðið hefur betri tími gefist til að sinna slíku. Að ganga eða hlaupa upp um fjöll og firnindi, eða rölta um úti í náttúrunni með nefið ofan í blómum og steinum finnst henni gefa lífinu gildi; að vera hér og nú.

Fyrsta ferð Óskar sem fararstjóri með FFA var afmælisraðganga um Fnjóskadalinn 2021, en hún tók að sér fararstjórn í tveimur raðgöngum það sumar, sú seinni úr Fnjóskadal yfir í Bárðardal.

Uppáhaldsstaðir sem eru efst í huga eru Víkurnar sunnan Borgarfjarðar svo og Loðmundarfjörður með sinni fjölbreyttu flóru.