Ólafur Kjartansson
Óli ólst upp á Brunná og helstu leiksvæði hans og systkinanna voru bakkar Eyjafjarðarár og Kjarnaskógur (og upp um hamrana þar fyrir ofan þó að fullorðnir ættu kannski ekki að vita af því þá). Hann er búsettur á Akureyri, er lærður vélvirkjameistari og hefur starfað sem iðnaðarmaður og leiðbeinandi af ýmsu tagi. Helsta áhugasvið er allt sem sést utan byggðar, bæði landslag og líf.
Á þrettánda ári gekk hann í skátana og þá bættust Súlumýrarnar og fjallið við leikvöllinn og í framhaldinu þátttaka í björgunarsveit og var Óli um skeið leiðbeinandi í Björgunarskólanum. Áherslur hans í útivist voru ferðaskíði á veturna og gönguskórnir á sumrin.
Hlíf móðir hans var í Ferðafélagi Akureyrar og kynntist Óli ferðafélaginu í gegnum hana, bæði með því að fara með henni í ferðir sem unglingur og líka í gegnum lestur árbókar félagsins sem áttu sinn sess í hillum æskuheimilisins.
Nú á síðustu árum hefur starf í FFA bæst aftur við félagsstörf Óla þegar hægði á öðru. Á síðustu árum hefur hann leitt nokkrar styttri rölt-ferðir hjá FFA og í tilefni þess að komast á eftirlaunaaldur tók hann þátt í brúarbyggingu yfir Fremri-Lambá 2023.