Fararstjórar

Til baka

Margrét Kristín Jónsdóttir

Fararstjóri

Margrét er fædd og uppalin á Húsavík en hefur búið á Akureyri í rúm þrjátíu ár og þekkir því vel til Norðurlands. Hún hefur alltaf haft brennandi áhuga á ferðalögum og útivist og nýtir hvert tækifæri til að skoða nýja staði eða upplifa gamla á nýjan hátt. Hún hleypti snemma heimdraganum og vann í skíðabæ í Ölpunum sem varð til þess að hún fór síðar í háskólanám til Þýskalands. Hún er menntaður tungumálakennari og hefur kennt við Menntaskólann á Akureyri í rúm þrjátíu ár. Hún tók leiðsögupróf ung og hefur starfað við það síðan og einnig sem fararstjóri erlendis. Síðustu ár hefur hún komið að menntun leiðsögumanna við Símenntun HA.

Margrét er áhugasöm um gönguferðir, á dásamlega göngufélaga og með þeim hefur hún gengið víða um náttúru Íslands. Hún á sér ótal uppáhaldsstaði og má þar nefna Hornstrandir, Lónsöræfi og Landamannalaugasvæðið eins og það leggur sig. Hér fyrir norðan eru líka margar náttúruperlur sem draga hana aftur og aftur til sín svo sem Jökulsárgljúfur og hálendið norðan jökla. Henni finnst mikilvægt að taka eftir þessu smáa í náttúrunni og eru plönturnar sérstakir vinir hennar.

Fyrsta ferð Möggu fyrir FFA er sumarið 2023.