Erla Sigurðardóttir
Erla Sigurðardóttir er uppalin í Ystafelli í Kaldakinn. Á námsárunum vann hún í Mývatnssveit og heldur sterkum tengslum í sveitina. Hún var um árabil kennari og áfangastjóri við Framhaldsskólann á Laugum og bjó þá í Reykjadal. Í tæp tuttugu ár var Erla búsett á Húsavík og starfaði lengst af fyrir sveitarfélagið sem teygir sig allt austur á Raufarhöfn. Þingeyjarsýslurnar eru því hennar heimavöllur. Erla er með réttindi sem svæðisleiðsögumaður á Norðurlandi, hún hefur gripið í leiðsögn um sínar heimasveitir meðfram annarri vinnu.
Erla er áhugamanneskja um útivist og hreyfingu, menningu, náttúru og þjóðlegan fróðleik. Hennar uppáhalds útivistarsvæði eru heiðar og fjalllendi í Þingeyjarsýslu, hvort sem er að sumri eða vetri. Það er fátt sem nærir líkama og sál eins vel og hressandi ganga um heiðar og fjalllendi. Best af öllu er þó smalamennskan á haustin.
Frá 2015 hefur Erla búið á Akureyri. Hún hefur verið í Botna- og Dyngjufellsnefnd FFA frá 2016 og haustið 2021 byrjaði hún í félaga- og kynningarnefnd FFA.
Sumarið 2022 byrjaði Erla að taka að sér sögugöngur hjá FFA.