Fararstjórar

Til baka

Ásdís Skúladóttir

Fararstjóri

Ásdís er alin upp á Ólafsfirði þar sem hún naut frelsis í náttúrufegurð fjalla og dala. Hún hefur að mestu búið á Akureyri frá árinu 1990. Ásdís er menntaður gjörgæsluhjúkrunarfræðingur og hefur starfað á Gjörgæsludeild Sjúkrahússins á Akureyri frá árinu 2000.

Ýmiskonar útivist, heilsa og hreyfing hefur verið ástríða Ásdísar frá unga aldri. Hún hefur stundað fjallgöngur til fjölda ára, unir sér best á fjöllum allan ársins hring og hefur farið víða. Fyrsta fjallaskíðaferðin var árið 2010 og hefur sú iðja átt hug hennar yfir vetrartímann síðan. Einnig eru hennar bestu stundir á skíðasvæði Hlíðarfjalls með fjölskyldunni.

Hver árstími hefur sinn sjarma og þess ber að njóta er mottó Ásdísar. Á sumrin finnst henni gaman að hjóla, bæði á götuhjóli og fjallahjóli. Einnig hefur hún gaman af náttúruhlaupum, sjósundi, tjaldútilegum og öðrum ferðalögum. Ásdís hefur iðkað jóga í mörg ár og hefur lokið tvenns konar jógakennaranámi. Jóga og hugleiðslur er daglegur hluti af hennar lífi.

Áhugi fyrir náttúrunni og náttúruvernd er einnig mikilvægt fyrir Ásdísi, hún hefur verið sjálfboðaliði í skálavörslu á Víknaslóðum í mörg sumur og hefur lokið Landvarðanámi frá Umhverfisstofnun. Ásdís gekk til liðs við Björgunarsveitina Súlur árið 2013 og hefur starfað þar af og til síðan.

Besta tilfinningin er að undirbúa skemmtilega fjallaferð og upplifa hana í góðum félagsskap.

Uppáhaldsstaðir eru margir en helst ber að nefna Loðmundarfjörð, tinda og dali Tröllaskagans, Hálendi Íslands og Hlíðarfjall.

Ásdís byrjaði sem fararstjóri hjá FFA sumarið 2023 með helgarferð í Fjörður ásamt Birnu G. Baldursdóttur. Í ágúst 2024 verða þær með sambærilega ferð í Lamba á Glerárdal. Vonandi fær FFA að njóta krafta þeirra áfram.