- Skrifstofan
- Félagið
- Ferðir og viðburðir
- Hreyfiverkefni
- Skálar
- Myndir
Á fundinn mættu 19 manns. Þorgerður formaður félagsins sagði í stuttu máli frá starfsemi á árinu 2019, ferðum og öðru starfi. Tæplega 400 manns fór í ferðir félagsins auk þess sem Þaulinn var á sínum stað en fjöldi þeirra sem skrá sig í hann eykst með hverju árinu. Félaga- og kynningarnefnd er ný nefnd, hún vinnur m.a. að því að kynna félagið og ná til yngra fólks. Af helstu nýjungum má nefna vikulegar sunnudagsgöngur en þær sóttu yfir 600 manns, Stóra plokkdaginn, tvær gönguferðir með unglinga í samstarfi við félagsmiðstöðvarnar og upplestur á fyrsta sunnudegi í aðventu svo eitthvað sé nefnt.
Aðalumræðuefni fundarins var nýbygging FFA við Drekagil sem er stærsta verkefni félagsins á næstunni en í ágúst hófst bygging þjónustuhúss þar. Húsið er ætlað tjaldgestum sem geta þá fengið húsaskjól, þurrkað fatnað auk þess að fá aðstöðu til að matast ef þarf. Einnig getur göngu- og hjólafólk haft aðstöðu í húsinu. Á efri hæð hússins verða nokkur herbergi þar sem rútubílstjórar og fararstjórar geta búið um sig. Húsið mun bæta mjög aðstöðu ferðafólks við Drekagil auk þess að létta á skálum FFA sem fyrir eru. Teikningar af húsinu lágu frammi á fundinum.
Hilmar Antonsson byggingarstjóri hússins og framkvæmdastjóri FFA sagði að þetta væri stærsta bygging sem félagið hefur ráðist í. Í sumar var allri jarðvinnu lokið, gólfsperrur settar og pallur í kringum húsið byggður. Í vetur er fyrirhugað að smíða húsið á Akureyri og hefst vinna við það laugardaginn 11. janúar. Húsið verður svo flutt í flekum í Dreka og vonast Hilmar til að hægt verði að reisa húsið í byrjun júlí. Að lokum auglýsti Hilmar eftir sjálfboðaliðum við smíðina um helgar í vetur. Þeir sem vilja bjóða fram aðstoð við þá vinnu á Akureyri eru beðnir að hafa samband við Hilmar eða skrifstofu FFA í síma 462 2720 / netfang ffa@ffa.is