- 21 stk.
- 24.12.2022
Raðganga: Gengið í fótspor Helgu Sörensdóttur
Helga Sörensdóttir var fátæk alþýðukona, fædd 1859 og dáin 1961. Helga bjó víða s.s. í Kaldakinn, Reykdælahreppi, Náttfaravíkum og Reykjahverfi í Þingeyjarsýslu. Á allri sinni ævi fór hún einungis einu sinni út fyrir þetta svæði, þá til kirkju að Laufási við Eyjafjörð.
Jón Sigurðsson frá Yztafelli skráði sögu Helgu. Hann valdi hana sem fulltrúa allra þúsundanna sem gleymast og ævikjör hennar voru dæmigerð fyrir fólk í sveitum landsins á þessum tíma.
Ferðafélag Akureyrar efndi til raðgöngu í fjórum áföngum á slóðir Helgu Sörensdóttur þar sem saga hennar var rakin. Fararstjórar voru Erla Sigurðardóttir og Ingvar Teitsson.
Fyrsta ferðin var farin 10. júlí, yfirlits- og kynningarganga. Á leiðinni var horft yfir nánast allt „sögusviðið“ og sagt frá ævi Helgu og ævisöguritaranum Jóni Sigurðssyni. Jón Sigurðsson yngri sem núna býr á Ystafelli tók á móti hópnum og sagði frá.
Önnur ferðin var farin 6. ágúst og var þá gengið frá Bjargkrókum að Ófeigsstöðum í Kaldakinn, horft var yfir til Náttfaravíkur þar sem Helga bjó sem barn. Hlöðver Pétur bóndi á Björgum fræddi þátttakendur um nánasta umhverfi og skriðurnar miklu sem féllu heim á tún á Björgum í október 2021. Síðan var gengið eftir innansveitarveginum suður Kaldakinn að kirkjustaðnum Þóroddsstað, en þar var Helga Sörensdóttir jarðsungin. Á leiðinni var rifjuð upp vist Helgu á bæjum í Útkinn.
Þriðja ferðin var farin 21. ágúst frá Ófeigsstöðum að Helgastöðum í Reykjadal. Gengið var upp skógi vaxna brekku að tóftunum af Fossseli en þar átti Helga Sörensdóttir heima í 11 ár. Síðan var gengið yfir Fljótsheiði. Komið var niður af heiðinni rétt norðan Helgastaða í Reykjadal en þar gekk Helga til spurninga og endaði gangan við Helgastaði.
Síðasti áfanginn var svo genginn 28. ágúst frá Helgastöðum að Ljósavatni. Gengið var yfir Fljótsheiðina að Fosshóli og áfram að Þorgeirskirkju þar sem kirkjan var skoðuð.