- 160 stk.
- 31.07.2019
Akureyri – Mývatn – Herðubreiðalindir – Bræðrafellsskáli – Kollóttadyngja – Bræðrafell – Dreki – Askja – Akureyri.
Við voru fimm sem lögðum af stað frá Akureyri á tveimur bílum og var ekið sem leið liggur um Mývatnsveit og Mývatnsöræfi og þaðan inn á veg 88 sem liggur upp í Dreka. Við vorum á leið upp í Herðubreiðalindir þar sem gangan átti að hefjast. Tvær ár eru á leiðinni Grafarlandaá og Lindá sem var í vexti en við vissum ekki af en yfir komumst við klakklaust. Þegar við komum í Herðubreiðalindir hittum við fólkið sem hafði farið daginn áður og vorum við þá orðin ellefu. Eftir hádegisverð var lagt af stað upp í Bræðrafell beint yfir hraunið og stefnt á norðurenda Herðubreiðar. Á leiðinni skoðuðum við meðal annars hrauntraðir og Dyngjur. Nýi skálinn á Bræðrafelli heilsaði okkur hlýlega og eftir kvöldmat var lagst til hvílu. Um klukkan níu um morguninn lögðum við af stað í göngu dagsins fyrst upp á Kollóttudyngju og svo yfir Bræðarfellið. Fyrst voru jarðföllin skoðuð síðan gengið upp á Kollóttudyngju í svarta þoku og hraglanda. Þegar við komum að punktinum sem við höfðum sett sem viðmið stóðum við á gígbarminum en lítið sást niður. Sest var niður í kaffipásui, og síðan var stefnan tekin á hæsta punkt rétt hjá. Þá reif hann af sér þokuna og útsýnið blasti við í allar áttir. Þau undur sem við áttum eftir að líta augum það sem eftir var dags er erfitt að lýsa nema í myndum, Hrauntraðir, gíga hraunslettur á ólíklegustu stöðum og allar tegundir af forynjum sem hugsast getur, alveg magnað. Daginn eftir var gengið frá Bræðrafelli upp í Dreka í bongó blíðu yfir tuttugu gráðum nokkuð löng ganga yfir 22 km, en allt hafðist það enda vant göngufólk á ferð. Daginn eftir var komin svarta þoka svo varla sást út úr augum, en samt var gengið yfir fjöllin í Víti og út á plan. Náð var í bílana niður í Dreka síðan náð í allt fólkið upp í Öskjuop og aftur niður í Dreka og eftir kveðjustund hélt hver sína leið eftir eftirminnilega og magnaða ferð.
Fararsjóri og myndir Frímann Guðmundsson