- 48 stk.
- 15.09.2013
Haustlitaferð í Jökulsárgljúfur, Hólmatungur - Ásbyrgi
Gönguferðin hófst við Hólmártungur en fyrst fórum við niður að Vígabjargarfossi og Kötlum. Víð stöldruðum aðeins við fossana í Hólmártungum en síðan gengum við með Stallánni og óðum að lokum yfir hana sem gaf sveittum tám sæluhroll. Við fengum okkur kaffi við Gloppuklett. Næst héldum við að Kallbjargi en þar kölluðust menn á yfir ána.
Einnig var þar kláfur notaður til að senda varning yfir ána. Rétt áður en við komum að Vesturdal sáum við tröllin Karl og Kerlingu við ána.
Í Vesturdal fengum við okkur góða hressingu og síðan hófst seinni hluti göngunnar. Við héldum að Hljóðaklettum, gengum meðfram Tröllkarlinum og nokkrir fóru í Kirkjuna. Síðan héldum við að Rauðhólum þar sem var fallegt útsýni yfir það svæði sem við höfðum gengið um. Nú var stefnan tekin þvert yfir Ásheiðina, fórum um Kvíar, Sund, Klappir og komum loks að risavöxnum skessukötlunum ofan við Ásbyrgi. Það þótti mörgum mikilfengilegt að horfa yfir Ásbyrgi en síðan héldum við beint niður með náttúrvættinu að austanverðu og gönguferðinni lauk loks við Gljúfrastofu en þá höfðum við verið um 8 tíma á göngu. Fararstjóri var Örn Þór Emilsson myndir Frímann Guðmundsson.