- 42 stk.
- 10.03.2013
Lambi
Ákveðið var að breyta skíðaferð til Ólafsfjarðar í göngu upp í Lamba sem fallið hafði niður vikuna áður vegna harðfennis. Ástæðan var meðal annars sú að snjóflóðahætta er víða þar sem snjóað hefur ofan á harðfenni. Lagt var af stað um kl 10:30 frá Extreme (gamla vigtunarhúsinu) þar sem ófært var upp á plan. Skíðafæri var gott, snjór var nægur og góður en talsvert djúpur þegar komið var upp fyrir Lambá. Ferðin gékk ljómandi vel frameftir, í upphafi ferðar var ansi dimmt fram á dalnum en eftir því sem framar kom létti til og þegar fram í Lamba kom var komið sólskin og logn og var því bæði matast úti og inni eftir því sem menn kusu. Elín sá til þess að heimferðin varð ögn sögulegri. Þegar við vorum komin vel yfir Lambá á heimleiðinni fór Elín að laga skíðið, og áður en nokkur vissi fór skíðið á skrið niður og þrátt fyrir heiðalega tilraun Grétars þaut skíðið niður allar brekkur og hvarf með stefnuna í Glerána. Konni og Frímann fóru að leita en ekkert fannst í ánni sem var opin og það var ekki fyrr en aftur var farið upp og förin þrædd niður að skíðið fannst á síðustu brúninni við ána. Sem betur fer var skíðið óskemmt. Eftir þetta gekk ferðin niðureftir eins og í sögu í glaða sólskini og logni. Komutími rétt fyrir fimm. Frímann Guðmundsson fararstjóri, Konráð Gunnarsson tók myndirnar.