- 14 stk.
- 24.06.2011
Gengum frá Skíðahóteli og fylgdum neðri skíðagönguleiðinni út með Hrappstaðaskálinni. Gengum síðan upp í þokuna með GPS mið á það sem við töldum Stórahnjúk. Alltaf jókst brattinn og var smá klifur upp efsta hjallan en þegar upp var komið létti þokunni og var ágætisútsýni í allar áttir nema niður, en þar var þokan eins og ísaldarjökull þannig að ekki sást niður í Kræklingahlíð eða annara byggða í Eyjafirði en mörg fjöll sáust vel.
Miðnætursólin lét hins vegar ekki sjá sig enda vorum við komin upp um kl. 23 og því ekki von á henni fyrr en á miðnætti! En það er alltaf kallt á toppnum og við nenntum ekki að bíða eftir sólinni. Þokan var ekki eins fylgispök á niðurleiðinni og völdum við því efri leiðina, þ.e. ofan við Stórhæð með viðkomu í gönguskíðaskála Skíðafélagsmanna og kvenna. Á leiðinni var sjónum beint að fallegum skófum sem víða var að finna og sumir dunduðu við að finna safn hrafntinnu meðan aðrir söfnuðu skíðaplastprikum. Við komum síðan niður í Skíðahótel á umsömdum tíma um kl. 1. Ekki voru menn sammála um hvort rakinn frá þokunni kæmi í stað Jónsmessudaggarinnar og því var lítið um að fólk færi að velta sér upp úr rakanum á Adams- eða Evuklæðum. Við verðum því að treysta á lýsið og Ginseng fram að næstu Jónsmessu.