- 20 stk.
- 12.04.2011
Ekið var árla morguns frá Akureyri og sem leið lá að Golfskála Ólafsfirðinga í mynni Skeggjabrekkudals. Þar var áætlað að stíga á skíðin og ganga Botnleið fyrir botn Héðinsfjarðar og niður að Hóli á Siglufirði, þar sem golfvöllur og íþróttamiðstöð Siglfirðinga er. Átta manns tóku þátt í ferðinni, þar af var einn dani og stóð hann sig með ágætum þrátt fyrir að vera alls óvanur að skíða í fjalllendi. Veður var með ágætum, milt, 10 12 °c hiti en sólarlaust, smá gola af sunnan. Ekki fór mikið fyrir snjónum til að byrja með og þurfti göngufólk að axla skíði sín og ganga nokkurn spöl til að byrja með. En fljólega var hægt að þræða snjó í skurðum og lægðum og inn við Hóla var kominn þokkalegur skíðasnjór. Færið var ágætt, passlega hart, - eða mjúkt, eftir því hvernig á það er litið. Að vísu versnaði heldur færið þegar fara átti niður brekkur því misrennsli var mikið og það var ómögulegt að halda einhverri reisn, hvað þá stíl niður brekkurnar! Þegar komið var niður í botn Hólsdals á Siglufirði fór aftur að skorta snjó og skíðin enduðu því aftur á öxlum göngufólks síðasta spölin. Að vísu náðu þeir hörðustu góðum skurði í restina, því eins og Konni sagði þá var þetta jú skíðaferð! En ferðin gekk vel og allir komust heilir niður að Hóli. Á Hóli beið Hilmar eftir görpunum og sá um að allir kæmust aftur til Ólafsfjarðar. Að endingu var hópnum boðin hressing í bústaðnum hjá Helgu og Hilmari áður en haldið var aftur til Akureyrar. Hér með leggur undirrituð það til, að sem flestar ferðir FFA endi á Ólafsfirði, nánar tiltekið yst á Kleifunum..... Fararstjóri: Una Sigurðardóttir. Myndasmiður Grétar Grímsson.