- 15 stk.
- 24.09.2008
Haustlitaferð í Botna 20.-21. september 2008. Ekið á einkabílum í Svartárkot í Bárðardal á laugardag. Þaðan gengið upp með Svartá og stoppað á Stóru-Flesju. Víða á leiðinni var stoppað til að skoða haustliti og áð í stórri laut sem gaf skjól fyrir vindinum. Með Sellandafjallið og Bláfellið á vinstri hönd var gengið í Gamla Botna þar sem við tókum af okkur bakpoka og skoðuðum gömlu rústirnar. Gengum síðan í Botna skála FFA í Suðurárbotnum eftir vegaslóða með svart hraunið til sitthvorrar handa. Gistum þar og átti hópurinn notalega kvöldstund saman við kertaljós og draugasögur. Á sunnudag var lagt af stað um níuleitið í hífandi roki og fimm stiga hita, en það hlýnaði þegar leið á daginn. Gengið var greitt heim á leið og var hópurinn komin í Svartárkot um eittleytið. Indæll lítill hópur sem á hrós skilið fyrir góða umgengni og hjálpsemi við að ganga frá í skálanum. Bjart var báða dagana og nutu haustlitirnir sín vel. Vil taka fram að myndast hefur smá tjörn rétt við skálann (Botna) þar sem hægt er að ná í neysluvatn. Skemmtilegir ferðafélagar og notaleg ferð í alla staði.
Leiðsögumaður og myndasmiður Kristín Björnsdóttir.