Fararstjórar

Til baka

Frímann Guðmundsson

Fararstjóri

Frímann Guðmundsson er fæddur og uppalinn í Hjalteyrarskóla. Það hafði þann kost að kynnast öllum krökkum hreppsins, því annan daginn var krökkum úr sveitinni kennt en hinn daginn krökkum úr þorpinu. Á þessum árum var mikið um að vera á Hjalteyri. Þar var stærsta síldarverksmiðja landsins og einnig var saltað í tunnur. Þetta var því mikið ævintýraland með sveitina hinum megin. Krakkarnir voru alltaf eitthvað að brasa úti við, rétt komið inn til að nærast. Snemma var svo farið að vinna og var Frímann kominn í fulla vaktavinnu þrettán ára gamall.

Fyrsta fjallaferðin var á Kötlufjallið, á þríhjóli. Ekki var mikið um gönguferðir næstu árin. En 1984 rakst hann inn á FFA og spurðist fyrir um gönguferðir. Það kom smá hik á fólkið, jú það var verið að skipuleggja Lónsöræfaferð næsta dag. Er laust pláss - jú líklega! Síðan var verslað; bakpoki, svefnpoki, dósamatur og fleira. Þessi ferð kveikti áhugann og var ekki aftur snúið, en bakpokinn var þungur.
Ýmis verk hafa verið unnin fyrir FFA frá þeim tíma, þar á meðal fararstjórn frá árinu 2000, fararstjórn í 15 sjö-tindaferðum, margar leiðir stikaðar og nokkrar brýr smíðaðar.  

Frímann hefur starfað í mörgum nefndum hjá FFA í gegnum árin m.a. í ferðanefnd, skálanefndum og gönguleiðanefnd svo eitthvað sé nefnt. Hann var lengi formaður ferðanefndar.

Uppáhalds útivistarsvæði Frímanns er Tröllskaginn bæði sumar og vetur svo og háhitasvæði landsins. Verkefni hans síðustu árin hefur verið að kynna Bræðrafell sem hann segir tilkomumesta fell landsins. Ferðir þangað undir hans leiðsögn verða æ vinsælli.