Síðustu ferðir sumarsins...

... eru á dagskrá um næstu helgi. Á laugardaginn 27.ágúst á að ganga að Trippaskál og sunnudaginn 28.ágúst verður gengin Þingmannaleið yfir Vaðlaheiði.

Á laugardaginn verður gengið á vit óskemmtilegra atburða sem gerðust haustið 1870 þegar 26 hross hröpuðu fram af hengiflugi. Gangan hefst á Öxnadalsheiði og er gengið upp með Grjótá og Vestmannadal upp í Trippaskál. Eftir að hafa skoðað þær menjar sem þarna eru enn, er haldið áfram niður úr Trippaskál og niður á Hörgárdalsheiði og þaðan niður með Norðurá.

Fararstjóri er Helga Guðnadóttir. Verð er 2.800 fyrir félaga en 3.300 kr fyrir aðra. Skemmtileg ferð við allra hæfi.

 

Á sunnudaginn verður svo gengin svokölluð Þingmannaleið yfir Vaðlaheiði, frá Hróarsstöðum í Fnjóskadal að Eyrarlandi Í Eyjafjarðarsveit. Meðal annars er á leiðinni gengið yfir brú, afar merkilega grjóthleðslu frá árinu 1871.

Fararstjóri er Frímann Guðmundsson. Verð er 2.000 kr fyrir félaga og 2.500 kr fyrir aðra. Áhugaverð ferð við allra hæfi.

 

Í báðum ferðunum sér rúta um að ferja mannskapinn til og frá göngu.

Brottför í báðar ferðirnar er kl. 8.00 frá skrifstofu félagsins og skráning og upplýsingar til kl 19 á föstudag á skrifstofu, s 462 2720.