Næstu ferðir

Næstu ferðir FFA eru í erfiðari kantinum, enda flestir búnir að koma sér í form á þessum tíma. En á n.k. laugardag verður gengið á hið skemmtilega fjall Torfufell í Eyjafirði, á sunnudeginum 25. júlí verður svo gengið á Kerlingu í Eyjafirði og fyrir þá sem láta ekki Kerlingu eina og sér duga þá er í boði að halda áfram í norður með súlufjallgarðinum með viðkomu á 6 öðrum tindum. Á mánudeginum verður svo lagt af stað upp á hálendi inn í Öskju og önnur Öskjuvegsferðin gengin, það er uppselt í hana. Síðasta ferð júlí mánaðar er ganga á Blástakk sem er fjall í tæpri 1400 m. hæð við botn Féggstaðadals inn úr mynni Barkárdals í Hörgárdal.

24. júlí. Torfufell, 1244 m.   
Gangan á fjallið hefst við fremsta bæinn, Hólsgerði. Gengið er upp brekkurnar og stefnt norðan við Hólsgerðishnjúkinn þar til komið er á fjallshrygginn og er honum síðan fylgt upp á fellið. Torfufell ber yfir nágrannafjöllin og er víðsýnt inn yfir öræfin. Til baka er gengið um Lambárdrag niður til Villingadals.
Fararstjóri: Grétar Grímsson.
Verð: kr. 1.500 / kr. 2.000
Brottför frá FFA kl. 8.00

25. júlí. Kerling, 1538 m. Sjö tinda ferð     
Gengið á hæsta fjall í byggð á Íslandi. Ekið að Finnastöðum í Eyjafjarðarsveit, farið þaðan á fjallið. Þar verður ferðinni tvískipt, sumir fara sömu leið til baka, aðrir norður eftir tindum að Súlum og niður í Glerárdalinn þar sem ferðin endar.
Fararstjóri: Vignir Víkingsson
Verð: kr. 3.000 / kr. 3.500
Innifalið: Fararstjórn.
Brottför frá FFA kl. 8.00

26. – 30. júlí. Öskjuvegur 2. Sumarleyfisferð. Trússferð   
Sjá lýsingu hér framar.
Fararstjóri: Frímann Guðmundsson.

31. júlí. Blástakkur, 1379 m.   
Upphaf göngunnar er við Féeggsstaði í Barkárdal. Farið er yfir Barká á göngubrú og gengið fram Féeggsstaðadalinn þar til áin skiptist við Féegg. Er þá farið yfir í tunguna og gengið upp Féeggina þar til komið er upp úr dalnum í um 1200 m hæð. Er þá lagt á fjallið sem er 1379 m. Stórbrotið útsýni yfir fjallasalinn og til Kolbeinsdals, Skíðadals og Barkárdals. Gengið til baka um Barkárdal að Baugaseli.
Fararstjóri: Konráð Gunnarsson.
Verð: kr. 1.500 / kr. 2.000
Brottför frá FFA kl. 8.00