Laugardaginn 23. júlí kl.22.00 lagði 34 manna hópur í Hornvíkurferð FFA, frá Ísafirði. Smá kaldi
var á leiðinni en á Hornvíkina vorum við komin kl. 00.15. Stuttu seinna var búið að slá upp tjöldum og súpa fram borin kl.
01.45. Léttskýjað var og hlýtt.
Eftir góðan morgunverð á sunnudeginum, smurðum við dagsnestið af morgunverðarborðinu og héldum í létta
göngu um Tröllakamb til Rekavíkur bak Höfn og áfram útí Hvannadal um svolítið tæpa en örugga götu. Þar skoðuðum
við Súlnastapa og Langakamb og nutum veðurblíðunnar. Á bakaleiðinni fóru nokkur uppí Atlaskarð. Eftir góðan dag í steikjandi
sólskini, logni og heiðskýru voru snæddar fiskibollur hjá kokkunum Rögnu og Þráni.
Á mánudaginn, eftir hafragraut og súrt slátur, óðum við Ósinn gengum Kýrskarð yfir að Hornbjargsvita
sem stendur í Látravík. Gísli Hjartarson fararstjóri á Hornströndum í áratugi kunni á öllu landslagi skil og bjó yfir
miklum fróðleik um menn og málefni á Hornströndum.Til baka var haldið um Almenninga og Almenningaskarð, en þar var norðan kul og því
auðvitað þokuslæðingur. Lummukaffi er við komum í tjöldin og kjöt og kjötsúpa í kvöldmatinn. Sól var og léttskýjað en dróg til norðanáttar seinnipartinn.
Þriðjudaginn var Ósinn vaðinn og fór hópurinn uppá Innstadal. Þau sprækustu fóru útá Horn,
yfir Miðfellið og uppá Kálfatinda þar sem þau komu til okkar sem fórum "bara á Tindana". Þar var frábært útsýni
norður um Skaga og vestur um Djúp.Grillveisla var um kvöldið og svo kvöldvaka og söngur fram á nótt. Steikjandi sólskin var og þennan daginn,
heiðskýrt, hlýtt en aðeins andvari.
Miðvikudaginn var genginn hringurinn í Víkinni eftir hádegið. Sama himnaríkis blíðan ríkti þennan daginn
og óhætt að segja að við höfum verið alveg einstaklega heppin með veðrið í ferðinni allri. Í kvöldmatinn var
pottréttur en að honum loknum voru tjöldin tekin niður og báturinn kom um kl.20.00 og flutti okkur til Ísafjarðar. Kaldaskítur var fyrir Straumnesið
er hópurinn hélt sæll og endurnærður eftir dvölina í þessari náttúruparadís aftur til siðmenningarinnar!
Jakob Kárason, fararstjóri.