- Skrifstofan
- Félagið
- Ferðir og viðburðir
- Hreyfiverkefni
- Skálar
- Myndir
Aðalfundur Ferðafélags Akureyrar 2022 var haldinn 7. mars. Þar las formaður ársskýrslu stjórnar fyrir 2021 og var þar komið inn á helstu verkefni allra nefnda 2021. Í skýrslu stjórnar kom m.a. fram að
1. desember 2021 voru félagar orðnir 628, góð þátttaka var í ferðum og verkefnum félagsins á árinu og að gistinóttum hefur fjölgað frá 2020, bæði í skálum og tjaldgistingu. Félagar eru hvattir til að lesa um starfið í Ferðum 2022 sem koma út á næstunni en þar birtast skýrslur allra þeirra 13 nefnda sem störfuðu á árinu.
Ársreikningar voru kynntir, ræddir og samþykktir. Nefndarmenn í þeim 14 nefndum sem verða starfandi 2022-2023 voru kynntir. Kosið var í stjórn en hún er óbreytt frá fyrra ári, skoðunarmenn reikninga og skjalavörður verða áfram þeir sömu. Endurnýjaðar upplýsingar um þetta koma inn á heimasíðu FFA við fyrsta tækifæri.
Lög FFA voru síðast endurskoðuð 1996. Á fundinum voru lagðar fyrir tillögur að lagabreytingum sem ný laganefnd FFA hefur lagt til. Góð umræða varð um þennan lið og að lokum var borin upp tillaga að breytingum á nokkrum greinum og þær samþykktar. Hægt er að sjá tillögurnar undir auglýsingu um aðalfundinn á heimasíðunni. Samþykkt útgáfa verður sett inn á heimasíðuna við fyrsta tækifæri.
Eftir kaffi og spjall fór formaður yfir það sem er framundan hjá félaginu. Þar kom m.a. fram að árið byrjar vel með þátttöku í ferðum og námskeiðum hjá félaginu. Auk þess eru að bætast við nýir félagar og er það góð þróun. Formaður sýndi jafnframt súlurit yfir þróun í ferðum og í þátttöku í þeim frá 2018 og kemur í ljós að nærri 1900 manns gengu með félaginu á árinu 2021 í ferðir á ferðaáætlun, barnaferðir, Tökum skrefið og hreyfiverkefni. Ennfremur kom fram að aðstöðuhúsið við Dreka verður tekið í notkun í sumar.