Þemaferðir um náttúruna 2024

Lítum okkur nær og lesum í landið

Þemaferðir um náttúruna

Frá miðjum maí, strax og fært er um áhugaverðar slóðir og fram í miðjan júní ætlar Ólafur Kjartansson að leiða smærri hópa og lesa í landið með opin augu fyrir því sem er næst okkur á leiðinni. Fyrirhugaðar eru 3-4 ferðir á þessum tíma. Í ferðunum verður horft, hlustað og jafnvel þefað og þreifað til að sjá, skynja og skilja sem flest af því sem verður á leið hópsins eða er lengra í burtu. Hvert verður farið hverju sinni verður auglýst með þriggja til fjögurra daga fyrirvara. Nauðsynlegt er að skrá sig í ferðirnar. Þá fá þeir sem skráðir eru tölvupóst um hvaða ferð verður næst, hvenær og hvar á að mæta. Allir eru velkomnir í þessar ferðir hvort sem þeir eru félagar í FFA eða ekki. Börn eru einnig velkomin.

Ferðirnar eru fríar en nauðsynlegt að skrá alla  Skráning

Fararstjóri er Ólafur Kjartansson

Áhugaverðir staðir sem gaman er að kynnast ennþá betur: Ótal staði væri hægt að nefna en til að byrja einhvers staðar má t.d. nefna efsta hlutann í Kjarna sem Óli þekkir vel frá barnæsku, Hamra, ákveðinn hluta Naustaborga, svæði við hitaveituskúrana ofan við Vegagerðina, Súluplanið, svæði norðan og sunnan við Skíðastaði og síðast en ekki síst þá má finna góða upphafsstaði undir Vaðlaheiðinni. Þessi upptalning er bara hugmynd um hvert hægt er að fara til að lesa í landið okkar og upplifa.

Ólafur gerir ráð fyrir að vera með minni hópa í hvert sinn (mest 12-15 manns) svo allir fái eitthvað út úr ferðinni og hann vonast til að þátttakendur leggi eitthvað til málanna í ferðunum. Börn eru velkomin með og það þarf að skrá þau líka.