Skíðagönguferðir 2024

Skíðagönguferðir FFA 2024

Skíðagönguferðir í febrúar, mars og apríl

Í febrúar, mars og apríl 2024 ætlar FFA að prófa nýtt fyrirkomulag á skíðagönguferðum. Í stað þess að setja allar ferðir á ákveðna daga vill ferðanefnd hafa fyrirkomulagið sveigjanlegra og geta ákveðið með ferðir eftir því hvar besta skíðafærið er hverju sinni. Hér fyrir neðan er listi með 13 ferðum sem fyrirhugaðar eru og verða ferðir valdar úr listanum eftir snjóalögum og veðri hverju sinni. Hægt er að skrá sig fyrirfram í ferðirnar og verður þá starfsmaður á skrifstofu í sambandi við viðkomandi um ferðina.

Einnig verður boðið upp á skíðagöngunámskeið, gunnnámskeið og framhaldsnámskeið
Það verður auglýst nánar síðar.
ALLIR ÆTTU ÞVÍ AÐ FINNA EITTHVAÐ VIÐ SITT HÆFI

Sérstök kynning verður á skíðaferðum vetrarins og skíðanámskeiðum þann 11. janúar kl. 20 í húsnæði FFA, Strandgötu 23.

Erfiðleikastig ferða
Búnaðarlisti fyrir dagsferð á gönguskíðum

Fróðleikur um snjóflóðahættu

 

Í skíðagönguferðum með FFA er æskilegt að vera á utanbrautarskíðum og taka með sér skinn á skíðin ef um einhverja hækkun er að ræða í ferðinni, það á að sjást í lýsingu með viðkomandi ferð. 


Tvær helgarferðir eru komnar á fastan tíma 2024:

Helgarferð: Skíðaganga í Lamba 2.-3. mars sjá hér

Helgarferð: Skíðaganga í Laugafell 3.-5. maí sjá hér

------------------

Valið verður á milli þessara ferða í febrúar, mars og apríl 2024 eftir aðstæðum:

Bakkar Eyjafjarðarár: Skíðaganga
(Ferðin var farin 24. febrúar 2024)
Brottför kl. 11 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Ingvar Teitsson
Ferðin hefst á bílastæðinu neðan við Kaupang og er gengið að Eyjafjarðará og síðan suður bakka árinnar að brúnni hjá Hrafnagili. Á leiðinni heyrum við sögur af fólki og dáumst að fögru útsýninu. Þægileg gönguleið á flötu landi. Selflytja þarf bíla milli upphafs- og endastaðar. Ferð fyrir alla.
Vegalengd 10 km.
Þátttaka ókeypis.

Vaglaskógur: Skíðaganga
(Ferðin var farin 3. febrúar 2024)
Brottför kl. 9 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Valbjörn Ægir Vilhjálmsson.
Kynning á frábæru skíðagöngusvæði í Vaglaskógi.
Ekið í Fnjóskadal, farið yfir brúna við Hróarstaði yfir í Vaglaskóg. Bílum lagt þar skammt frá. Genginn verður skemmtilegur hringur um skóginn. Frekar auðveld gönguleið en einhverjar brekkur verða á leiðinni, ferð við flestra hæfi
Vegalengd alls 6-8 km. Gönguhækkun: 100 m.
Verð: 2.000/3.500. Innifalið: Fararstjórn.

Vaðlaheiði: Skíðaganga
(Ferðin var farin 17. febrúar 2024)
Brottför kl. 10 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Arnaldur Haraldsson.
Ekið í Víkurskarð, bílar skildir eftir þar. Gengið þaðan upp á Vaðlaheiði og haldið í suður eftir hæðóttu landslagi að Skólavörðu. Haldið til baka í bíla, leiðin ræðst af veðri og færð. Af Vaðlaheiði er gott útsýni yfir Akureyri og Eyjafjörð.
Vegalengd getur orðið 18-20 km en það fer eftir snjóalögum og hvaða leið verður fyrir valinu. Gönguhækkun getur verið á bilinu 300-500 m en það fer eftir því hvaða leið verður fyrir valinu.
Verð: 2.500/4.000. Innifalið: Fararstjórn.

Mývatnssveit: Skíðaganga
(Ferðin var farin 9. mars 2024)
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Gróa B. Jóhannesdóttir og Halldór Snæbjarnarson.
Ekið að Kröfluvirkjun. Skíðaganga í nágrenni Kröflu með löngum ávölum brekkum. Viðkomustaðir ráðast af snjóalögum, en á svæðinu eru Hrafntinnuhryggur, Sandabotnar, Hágöng, Graddabunga, Hreindýrahóll, Gjástykki, Leirhnjúkur og Víti.
Vegalengd: 15-18 km. Gönguhækkun: Fer eftir snjóalögum en hún er alltaf einhver
Verð: 3.500/5.000. Innifalið: Fararstjórn.


Baugasel í Barkárdal: Skíðaganga
(Ferðin var farin á skírdag 28. mars 2024)
Brottför kl. 9 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Þóroddur F. Þóroddsson
Gangan hefst við Bug í Hörgárdal. Fremur létt og þægileg leið fram að eyðibýlinu Baugaseli en þar er lítið safn gamalla muna. Gil og rústir skoðuð á leiðinni. Sama leið farin til baka.
Vegalengd alls 12-13 km. Gönguhækkun 80 m.
Verð: 2.500/4.000. Innifalið: Fararstjórn.

Súlumýrar: Skíðaganga
Brottför kl. 9 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Þóroddur F. Þóroddsson
Gangan hefst við afleggjarann í Fálkafell og er haldið þaðan upp Sigurðargil og á Súlumýrar. Þar er frábært skíðagöngusvæði og má finna leiðir við allra hæfi.
Vegalengd alls 12-13 km. Gönguhækkun 300 m.
Verð: 2.500/4.000. Innifalið: Fararstjórn.

SKRÁNING

Skíðadalur: Skíðaganga
(Ferðin var farin 10. febrúar 2024)
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Kristján E. Hjartarson
Ekið að hliði innan við bæinn Þverá í Skíðadal og gengið þaðan inn að Sveinsstöðum með viðkomu í Stekkjarhúsum eða eftir því sem færð leyfir. Dalurinn er frábært skíðasvæði og mjög fallegur í vetrarbúningi.
Vegalengd alls 13-14 km. Gönguhækkun 200 m.
Verð: 2.500/4.000. Innifalið: Fararstjórn.

Illugastaðir - Sörlastaðir: Skíðaganga
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Ingvar Teitsson
Ekið að Fnjóskárbrú hjá Illugastöðum og gengið inn Fnjóskadal framhjá eyðibýlum að Sörlastöðum, en þangað er um 10 km ganga. Á leiðinni verða sagðar sögur af svæðinu og dáðst að stórfenglegu útsýninu í fremsta hluta Fnjóskadals. Sama leið farin til baka.
Vegalengd alls 19-20 km. Gönguhækkun: 90 m.
Verð: 3.500/5.000. Innifalið: Fararstjórn.

SKRÁNING

Stöng - Þverá í Laxárdal: Skíðaganga
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Ingvar Teitsson
Ekið austur að Þverá í Laxárdal þar sem bílar eru skildir eftir. Rúta sækir hópinn þangað og ekur á upphafsstað sem er að Stöng.
Gengið norður Mývatnsheiði austan Másvatns. Þaðan er gengið norðvestur Laxárdalsheiðina og upp á Ljótsstaðahall og síðan norður Skollhólamýri og austur af heiðinni að Þverá í Laxárdal. Á leiðinni eru rifjaðar upp slysfarasögur við Hallgrímslág og Skollhóla. Ferðin endar við bæinn Þverá í Laxárdal. Mikið útsýni er af Laxárdalsheiðinni.
Vegalengd: 17 km. Gönguhækkun: 60 m.
Verð: 11.000/12.500. Innifalið: Rúta og fararstjórn.

SKRÁNING

Eyðibýli á Fljótsheiði: Skíðaganga
(Ferðin var farin 16. mars 2024)
Brottför kl. 9 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Ingvar Teitsson
Ekið að malarnámum austan í Fljótsheiði þar sem nokkrir bílar eru skildir eftir. Síðan er ekið austur Reykjadal fram veginn að Stafnshverfi (Hábungu) þar sem gangan hefst. Gengið vestur að Herforingjavörðunni efst á Narfastaðafelli og svo þaðan í Heiðarsel. Frá Heiðarseli er farið í Gafl, Narfastaðasel og Skógarsel. Frá Skógarseli er síðan gengið norðvestur á hringveginn austan í Fljótsheiði það sem bílarnir bíða.
Vegalengd um 17 km. Gönguhækkun óveruleg.
Verð: 3.500/5.000. Innifalið: Fararstjórn.

Fljótsheiði - Hafralækur: Skíðaganga
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Ingvar Teitsson
Ekið að Hafralækjarskóla þar sem nokkrir bílar eru skildir eftir, síðan er ekið að malarnámu á Fljótheiði þar sem gangan hefst. Gengið norður Fljótsheiði norður á Skriðumel. Þaðan er gengið austur af heiðinni norðan Fjallshnjúks og norður að Hafralækjarskóla þar sem bílarnir bíða. Ekið upp á Fljótsheiðina bílar sem þar eru sóttir og ekið heim. Mikið útsýni af Fljótsheiðinni yfir Suður-Þingeyjarsýslu austan Kinnarfjalla.
Vegalengd: 19-20 km. Gönguhækkun óveruleg.
Verð: 3.500/5.000. Innifalið: Fararstjórn

SKRÁNING

Heljardalsheiði: Skíðaganga   -  
(Ferðin var farin 6. apríl 2024)
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Kristján E. Hjartarson
Ekið til Dalvíkur og áfram inn í Svarfaðardal að Koti. Þaðan er lagt upp og gengið að eyðibýlinu Vífilsstöðum og áfram fram Vífilsgrundir. Farið er yfir Svarfaðardalsá fram undir Heljarbrekkum. Gengið upp Möngubrekkur að Stóruvörðu og í Heljuskála á Heljardalsheiði. Þar er litið í bæinn og hellt upp á kaffi og slakað á áður en skíðin verða spennt á fætur og haldið niður í byggð á ný.
Vegalengd alls 13-14 km. Gönguhækkun: 670 m.
Verð: 3.500/5.000. Innifalið: Fararstjórn.

Mosi í Böggvisstaðadal: Skíðaganga
Brottför kl. 8 á einkabílum frá FFA, Strandgötu 23.
Fararstjórn: Kristján E. Hjartarson
Ekið til Dalvíkur að skíðaskálanum í Böggvisstaðafjalli. Þaðan er skíðað upp í Böggvisstaðadal og áfram inn dalinn, fram hjá Dalakofanum sem er áningarskáli og kúrir undir Grímubrekkum. Áfram er haldið í áfangastað sem er skálinn Mosi. Sama leið farin til baka.
Vegalengd alls 15 km. Gönguhækkun: 650 m.
Verð: 2.500/4.000. Innifalið: Fararstjórn. Greiða þarf aðstöðugjald í Mosa.

Í skíðagönguferðum með FFA er æskilegt að vera á utanbrautarskíðum og taka með sér skinn á skíðin ef um einhverja hækkun er að ræða í ferðinni, það á að sjást í lýsingu með viðkomandi ferð.